Grunur um olíuleka eftir stóran jarðskjálfta

Bátur að veiðum við Alaska. Mynd úr safni.
Bátur að veiðum við Alaska. Mynd úr safni. AP

Skip sem sökk við Kodiak-eyju undan ströndum Alaska fyrir rúmum þrjátíu árum hefur tekið að leka dísilolíu í hafið. Embættismenn grunar að jarðskjálfti sem reið yfir í síðasta mánuði, og mældist 8,2 stig að styrkleika, eigi sök að máli.

Skipið sökk árið 1989 í Womens-flóa og hefur hvílt þar á hafsbotni alla tíð síðan.

Fyrst var tilkynnt um að til olíu sæist í sjónum um viku eftir jarðskjálftann, sem varð 28. júlí, en skjálftinn var sá stærsti sem mælst hefur í Bandaríkjunum í meira en hálfa öld.

Ekki er ljóst hversu mikið magn dísilolíu og annarra mengunarefna er að finna í skipinu, sem nefnist Saint Patrick.

Varð fyrir risaöldu

Skipið varð fyrir skyndilegri risaöldu í nóvember árið 1981, nærri Marmot-eyju. Tólf manna áhöfnin yfirgaf um leið skipið, en aðeins tveir lifðu af. Síðar var skipið togað inn í Womens-flóa, þar sem það sökk síðar.

„Þeim hefur tekist að lágmarka lekann,“ hefur fréttamiðillinn Anchorage Daily News eftir Jade Gamble, sem hefur yfirumsjón innan Alaska með lekum á borð við þennan.

„Meginmarkmið okkar er að tryggja að það verði ekki einhvers konar hrikalegur leki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert