Háskólakonur hylji andlit sitt

Konur í Afganistan mega sækja sér menntun í einkaháskólum. Þær …
Konur í Afganistan mega sækja sér menntun í einkaháskólum. Þær þurfa þó að fylgja ströngum reglum og hylja líkama sinn og andlit. AFP

Nýjar reglur talíbana í Afganistan kveða á um að konur sem eru nemendur við einkaháskóla í landinu þurfi klæðast kufli og hylja andlit sitt með niqab. Þá hafa talíbanar einnig farið fram á að námskeiðum við skólann skuli skipt upp eftir kyni eða að tjald verði dregið milli karlkyns og kvenkyns nemenda í skólanum.

Talíbanar birtu um helgina langa reglugerð um það hvernig menntamálum skuli háttað í Afganistan hér eftir. Þar á meðal eru reglur um að konur skuli kenna konum, ef það sé ekki mögulegt þurfi að finna „eldri karlmann“ með gott orðspor til að kenna konum. 

Reglugerðin nær til einkaháskóla og framhaldsskóla sem stofnaðir hafa verið frá árinu 2001. 

Ekki er gerð krafa um að konur klæðist búrku í skólanum, aðeins niqab, en niqab hylur allan líkamann fyrir utan augun. Búrkur og niqab hafa verið á útleið í höfuðborginni Kabúl undanfarin ár en eftir að talíbanar hrifsuðu til sín völd hafa konur klæðst þeim oftar. 

Kennslustundirnar þurfa að enda á undan stundum karlanna

Margir einkaháskólar og framhaldsskólar stefna að því að opna dyr sínar á mánudag. Samkvæmt reglunum verða háskólar að ráða inn fleiri konur til kennslu til að kenna konum.

Kennslustundir sem konur sitja þurfa að enda fimm mínútum áður en kennslustundum karla lýkur svo karlar og konur geti ekki talast við fyrir utan kennslustofur. Konur eiga að bíða í þar til gerðum biðstofum þar til karlkyns nemendur hafa yfirgefið bygginguna. 

„Þetta skipulag er erfitt í framkvæmd. Við erum ekki með nóg af kvenkyns kennurum og getum ekki aðskilið kynin í kennslustofum. En sú staðreynd að þeir ætli að leyfa konum að halda áfram að mennta sig er stórt jákvætt skref,“ sagði háskólakennari í Afganistan í samtali við AFP. Hann vildi ekki láta nafn síns getið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert