Óhjákvæmilegt að hraun renni í íbúabyggð

Íslendingur sem staddur er á La Palma segir óhjákvæmilegt að …
Íslendingur sem staddur er á La Palma segir óhjákvæmilegt að hraun renni inn í íbúabyggð. AFP

Óhjákvæmilegt er að hraun flæði inn í íbúabyggð á eyjunni La Palma þar sem eldgos hófst á þriðja tímanum. Hraun hefur tekið að flæða yfir malbikaða vegi. Staðbundin rýming er hafin á eyjunni.

Þetta segir Þórarinn Einarsson, íbúi á La Palma, við mbl.is. 

Þegar mbl.is ræddi við hann var hann staddur ofarlega í byggðinni á La Palma og gat séð hvar gosmökk lagði upp úr fjallshlíð á eyjunni. Eyjan er nokkuð dreifbýl og íbúabyggð allt í kringum gossvæðið. Ef hraunrennsli verður umtalsvert, verður ekki hjá því komist að hraun renni í byggð. 

„Ég labba nokkrar mínútur hérna upp í fjallshlíðina og fæ þetta fína útsýni. Þannig ég sé mökkinn og hann nær ansi vel upp. Svo er reykur á jörðu niðri sem virðast vera skógareldar en það er ekki alveg ljóst hvernig þetta verður, ég sé ekki hraunrennsli ennþá,“ segir Þórarinn. 

Starfsmaður Eldfjallastofnunar La Palma tekur hitamynd af eldgosinu.
Starfsmaður Eldfjallastofnunar La Palma tekur hitamynd af eldgosinu. Ljósmynd/Twitter

Hætta á skógareldum

Þórarinn segir einnig að mögulega geti meiri hætta skapast ef miklir skógareldar brjótast út vegna eldgossins. Nýlega voru miklir skógareldar á eyjunni. 

„Maður sér allavega reyk sem virðist vera skógareldur. Það er byrjað að rýma. Það voru skógareldar hérna í fyrra og ég held að það sé kannski mesta hættan af því núna af því þeir geta breiðst ansi hratt út.“

Ekki mikil skelfing gripið um sig

Þórarinn segir að hann og aðrir Íslendingar, sem og það fólk sem er í kringum hann, sé nokkuð rólegt yfir gosinu. Ekki hefur komið til rýmingar á því svæði sem Þórarinn býr og því hefur hann ekki enn pakkað í töskur til að flýja. 

„Ég á nú reyndar flug á þriðjudag sem er ekki alveg fyrirséð hvort verði hreinlega. Það er ekkert víst að það verði farið,“ segir hann.

mbl.is