Barn látið eftir harmleikinn í Wisconsin

Alls hafa sex manns látið lífið.
Alls hafa sex manns látið lífið. AFP

Átta ára gamalt barn, sem slasaðist þegar maður ók bif­reið sinni inn í jóla­skrúðgöngu í Waukesha í Wisconsin-ríki á sunnu­dag, er látið.

Alls hafa sex manns látið lífið en enn eru nokkur börn í lífshættu.

Foreldrar hins átta ára Jackson Sparks greindu frá andláti hans á GoFundMe-síðu þeirra. Þau greindu einnig frá því að tólf ára sonur þeirra, Tucker, hafi slasast í skrúðgöngunni en hann væri að jafna sig.

Sakaður um að hafa keyrt yfir barnsmóður sína

Darrell Brooks hefur verið ákærður fyrir manndráp af ásetningi en hann hefur sömuleiðis verið sakaður um að hafa stýrt jeppa sínum í átt að meðlimum lúðrasveitarinnar, dönsurum og börnum í jóla­skrúðgöngunni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lögregla hefur afskipti af Brooks en fyrir nokkrum vikum var hann handtekinn fyrir að hafa beitt barnsmóður sína heimilisofbeldi og fyrir að hafa keyrt yfir hana.

Íbúar í Waukesha minnast hinna látnu.
Íbúar í Waukesha minnast hinna látnu. AFP
mbl.is