Funduðu um hernaðaruppbyggingu Rússa

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í fundinum í …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í fundinum í dag í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sérstakur aukafundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins var haldinn í dag vegna stöðu öryggismála í Evrópu og hernaðaruppbyggingar Rússlands í og við Úkraínu. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tók þátt í fundinum í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að á fundinum, sem haldinn var með fjarfundarbúnaði, hafi verið rædd sú alvarlega staða sem upp er komin vegna aðgerða Rússlands á þessu svæði og áhyggjur af því að hætta sé á hernaðarátökum.

Frekari brot hafa afleiðingar fyrir Rússland

Á fundinum lögðu ráðherrar áherslu á að frekari brot myndu hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir Rússland. Einnig var áréttaður vilji bandalagsríkja til að ræða stöðu öryggis- og varnarmála í Evrópu en þó sérstaklega þá ógn sem steðjar að Úkraínu og þar með stöðugleika í okkar heimshluta.

Í tilkynningu segir að íslensk stjórnvöld leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðalögum og að hernaðarmáttur megi ekki ráða för í alþjóðasamskiptum. Hernaðaruppbygging við Úkraínu og hótanir Rússlands í garð bandalagsríkja séu því mikið áhyggjuefni fyrir ríki Atlantshafsbandalagsins og önnur vestræn lýðræðisríki.

Fundur í NATO-Rússlandsráðinu hefur verið boðaður í því skyni að halda áfram uppbyggilegu samtali. Sá fundur verður 12. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert