Ákæra Gjerdrum vegna hörmunganna í Ask

Frá hamfarasvæðinu í lok árs 2020.
Frá hamfarasvæðinu í lok árs 2020. AFP

Lögreglan í Austur-Noregi hefur lokið rannsókn á þeim hörmungum sem fylgdu jarðfalli í bænum Ask í sveitarfélaginu Gjerdrum í Noregi fyrir rúmu ári síðan. Lögregluembættið hefur stefnt sveitarfélaginu fyrir vanrækslu.

Jörðin gaf eft­ir í lok desember árið 2020 með þeim af­leiðing­um að tíu íbú­ar og eitt ófætt barn í hús­um á ham­fara­svæðinu létu lífið.

Í ákærunni kemur ekki fram að sveitarfélagið hafi með virkum hætti valdið skriðuföllum né að mistök hafi orðið í skipulagsmálum á svæðinu, að sögn lögreglu. 

Þá leggur lögreglan áherslu á að sveitafélagið hafi verið samstarfsfúst í rannsókninni. 

Málið hefur verið sent til ríkissaksóknara í Osló. Nokkur tími mun líða áður en þeirri vinnu lýkur, að sögn Andreas Schei ríkissaksóknara.

„Við tökum þessu mjög alvarlega. Jafnframt fögnum við því að málið sé rannsakað vel. Við erum að leita almennilegra svara,“ segir Anders Østensen borgarstjóri Gjerdrum. 

Hann segir sömuleiðis að það hafi verið erfitt að heyra af því að ákæra ætti sveitarfélagið. Hann segist hissa á ákærunni og ósammála henni. Samt sem áður segir Østensen að sveitarfélagið hefði getað gert ýmislegt öðru vísi. Ef hann hefði verið meðvitaður um að jarðvegsrofið væri lífshættulegt hefði eitthvað verið gert í því. Það hafi sveitarstjórnin ekki vitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert