Hátt í 1.000 hermenn hafi gefist upp

Börn í Prag mótmæla stríðinu í Úkraínu og kalla eftir …
Börn í Prag mótmæla stríðinu í Úkraínu og kalla eftir því að fólki verði bjargað frá Asovstal. Myndin er tekin í byrjun viku. AFP

Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði í dag að 959 úkraínskir hermenn, sem héldu til í Asovstal-stálverksmiðjunni í borginni Maríupol, hefðu gefist upp það sem af er viku.

„Á síðasta sólarhring gáfust 694 hermenn upp. Þar af voru 29 særðir,“ sagði í tilkynningu frá ráðuneytinu. „Síðan 16. maí hafa 959 hermenn gefist upp, þar af 80 særðir.“

Samkvæmt ráðuneytinu verða særðu hermennirnir færðir á spítala í bænum Novoasovsk sem Rússar ráða yfir. 

Í síðasta mánuði tóku Rússar völdin í Maríupol eftir nokkurra vikna umsátur. Hundruð úkraínskra hermanna héldu þó áfram til neðanjarðar á Asovstal-iðnaðarsvæðinu. 

Varnarmálaráðuneyti Úkraínu hefur sagt að það muni gera allt sem nauðsynlegt er til þess að bjarga þeim sem eftir sitja á iðnaðarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert