NATO og þumalskrúfa Erdogans

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Sendiherrar Svíþjóðar og Finnlands afhentu á miðvikudag Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO) aðildarumsókn sína að bandalaginu, sem var vel tekið, enda uppfylla þau öll aðildarskilyrði þess og ríkur vilji til þess að hraða umsóknarferlinu. Einn sagði þó þvert nei, en það var Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Og þar við situr nema hann verði sannfærður um annað.

Ekki þarf að eyða mörgum orðum í það hversu fullkomlega misheppnuð árás Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta á Úkraínu hefur reynst. Sá yfirgangur átti að lækka rostann í Úkraínu og vera öðrum grannríkjum til viðvörunar, skáka Atlantshafsbandalaginu (NATO) og treysta stöðu Rússlands á alþjóðavettvangi.

Raunin hefur verið mjög á aðra leið. Úkraína hefur reynst eiga í fullu tré við innrásarherinn, sem bendir til þess að rússneski herinn hafi verið stórkostlega ofmetinn um margra ára skeið. Dómgreindarleysi Kremlarbænda í bland við skefjaleysi og villimennsku í garð almennra borgara, að ógleymdu gáleysislegu tali um beitingu kjarnorkuvopna, hefur ekki aðeins einangrað Rússland gagnvart Vesturlöndum, heldur sameinað þau og blásið nýju lífi í NATO.

Áþreifanlegasta afleiðingin utan Úkraínu er þó sú að bæði Finnar og Svíar hafa skipt um skoðun.

Neitunarvaldið í NATO

Atlantshafsbandalagið er mögulega best heppnuðu alþjóðasamtök sögunnar og fagnaði nýverið 73 ára afmæli sínu.

Velgengni NATO hefur að miklu leyti mátt rekja til þess að það heldur sig við þrönga en ákaflega veigamikla varnarhagsmuni, sem kristallast í því að árás á hvert og eitt ríki þess skoðast sem árás á þau öll og bandalagsríkin hafa skuldbundið sig til sameiginlegra varna og samstöðu í ófriði. Einmitt vegna þess hve hagsmunirnir eru ríkir eru allar ákvarðanir teknar í sameiningu: Þar hefur hvert og eitt ríki neitunarvald og því beitir Erdogan nú til þess að aftra sögulegri aðild norrænu ríkjanna tveggja, einmitt þegar ófriðarskýin hrannast upp yfir Moskvu.

Þvermóðska Erdogans

Erdogan fer ekki dult með ástæður þess að hann segir nei. Hann segist hafa áhyggjur af því að Svíar og Finnar séu einfaldlega ekki á „sömu síðu“ í öryggismálum og styðji hryðjuverkamenn.

Þar vísar Erdogan fyrst og fremst í afstöðu þeirra til sjálfstæðishreyfinga Kúrda, en vænn hluti Kúrdistans liggur innan landamæra Tyrklands. Þar er hin vopnaða kommúnistahreyfing PKK Tyrkjum sérstakur þyrnir í augum. Ekki þeim einum þó, því bæði Evrópusambandið og Bandaríkin skilgreina PKK sem hryðjuverkasamtök. Finnar og Svíar hafa hins vegar veitt mörgum félögum í PKK hæli og hafa hafnað framsalskröfum Tyrkja á 30 félögum í PKK.

Þá hafa þar fengið hæli ýmsir fylgjendur klerksins Fethullahs Gulens, sem Erdogan segir hafa staðið á bak við valdaránstilraunina 2016, sem gerði Tyrklandsforseta kleift að herða tök sín á landstjórninni til muna og losa sig við fjölmarga andstæðinga og gagnrýnendur.

Það er þó ekki allt, því Finnar og Svíar fordæmdu einnig herleiðangur Tyrkja árið 2019 inn í hið stríðshrjáða Sýrland og hafa beitt Tyrkland refsiaðgerum síðan. Ekki er að efa að fjölmörg NATO-ríki voru sammála, en þögðu til þess að styggja bandamanninn ekki.

Erdogan vill að Svíar og Finnar láti af öllum refsiaðgerðum gegn Tyrklandi og hætti að veita félögum í PKK hæli, en Tyrkir telja löndin „gróðrarstíu“ hryðjuverkamanna samtakanna. Norðurlandaþjóðirnar tvær kunna að geta komið eitthvað til móts við þá, en framsalskrafan er þeim erfið, enda réttarfar í Tyrklandi ekki rómað.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert