Bandaríkin eigi nóg af bóluefnum gegn apabólu

Biden telur ekki þurfa að bæta í viðbúnað.
Biden telur ekki þurfa að bæta í viðbúnað. AFP

Bandaríkin eiga nægilega mikið magn af bóluefnum til þess að takast á við mögulega útbreiðslu apabólu og þarf ekki að bæta í viðbúnað þar í landi, að sögn Joes Bidens Bandaríkjaforseta. 

Hann var spurður hvort Bandaríkjamenn ættu að búast við því að fólk væri sett í sóttkví vikum saman ef það smitaðist af apabólu eftir að nokkur tilvik hennar greindust í þessum mánuði í Norður-Ameríku og Evrópu. 

„Nei, ég held ekki. Sjáið til: Við höfum fengið apabólu í meira magni hér áður fyrr,“ sagði Biden á blaðamannafundi í Tókýó, höfuðborg Japans, í kjölfar viðræðna við Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans. 

„Í öðru lagi. Við eigum bóluefni til þess að takast á við apabóluna. Í þriðja lagi, í ljósi þess sem ég hef áður sagt, virðist ekki vera nauðsynlegt að grípa til neinna frekari fyrirbyggjandi aðgerða.“

Apabóla dregur fólk almennt ekki til dauða en hún getur lýst sér í hita, vöðvaverkjum, bólgnum eitlum, kuldahrolli, þreytu og útbrotum sem líkjast hlaupabólu á höndum og andliti.

Sjúkdómurinn, sem er landlægur í hluta Afríku, getur borist á milli fólks með snertingu í gegnum rifur á húð eða líkamsvökva.

Hefur ekki greinst hér á landi

Enn hefur apabóla ekki greinst á Íslandi en í samtali við mbl.is í gær sagði Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala, ekki ósennilegt að hún muni berast hingað í ljósi þess að bólan hefur verið að greinast í nágrannalöndunum. Eftir um tvær til þrjár vikur verður hægt að beita skimunum til þess að greina hana hér á landi. 

Land­spít­al­inn býr yfir próf­um sem geta greint veir­ur skyld­ar apa­bólu­veirunni og veitt þar með sterk­an grun um til­vist sjúk­dóms­ins, en aft­ur á móti þyrfti að senda slík sýni til Svíþjóðar til staðfest­ing­ar, eins og staðan er núna.

Guðrún sagði við mbl.is í gær ólíklegt að apabólan muni ná mikilli útbreiðslu hér á landi.

„Fólk þarf að vera í mjög ná­inni snert­ingu til þess að smit­ast,“ sagði Guðrún

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert