Ekki snerta útlendinga og ókunnuga

Fyrsta tilfellið af apabólu í Kína greindist nýlega.
Fyrsta tilfellið af apabólu í Kína greindist nýlega.

Wu Zunyou, sóttvarnalæknir Kína, hefur varað íbúa við því að „snerta“ útlendinga vegna hættu á apabólusmiti. Fyrsta tilfelli sjúkdómsins greindist í landinu í gær.

Ráðleggingin, sem birtist á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo, hefur vakið hörð viðbrögð og þykir mörgum hún bera vott um rasisma. 

BBC greinir frá.

„Til að koma í veg fyrir apabólusmit og sem hluti af heilbrigðu líferni er mælt með því að 1) þú forðist beina snertingu við húð útlendinga,“ segir í færslunni sem birtist í gær. Búið er nú að loka á athugasemdakerfið.

Þá mælti sóttvarnalæknirinn sömuleiðis gegn því að fólk snerti ókunnuga jafnt sem ferðalanga sem væru nýkomnir til landsins eftir ferðalag erlendis.

Fyrst tilfelli af apabólu greindist í gær í Kína í borginni Chongqing, sem staðsett er í suðvesturhluta landsins. Einstaklingurinn sem reyndist smitaður hafði nýlega verið erlendis. Ekki liggur fyrir hvort að um ferðamann sé að ræða eða kínverskan ríkisborgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert