Aflýsir atkvæðagreiðslu um innlimun Suður-Ossetíu

Stríðinu í Úkraínu mótmælt í Georgíu.
Stríðinu í Úkraínu mótmælt í Georgíu. AFP

Leiðtogi aðskilnaðarsinna í Georgíu hefur ákveðið að hætta við atkvæðagreiðslu um að Suður-Ossetía verði hluti af Rússlandi. Forveri hans hafði tilkynnt að atkvæðagreiðsla um aðskilnað frá Georgíu færi fram 17. júlí. 

Leiðtoginn, Alan Gagloev gaf á mánudag út tilskipun þess efnis að hætt verði við atkvæðagreiðsluna vegna „óvissu um lagaleg áhrif málefnisins sem kjósa á um“. Suður-Ossetía hefur verið undir stjórn aðskilnaðarsinna sem njóta stuðnings yfirvalda í Moskvu. Forveri Gagloev, Anatoly Bibilov, skrifaði í maí undir tilskipun um að atkvæðagreiðsla um aðskilnað frá Georgíu færi fram í sumar. Bibilov náði ekki endurkjöri í kosningum á svæðinu fyrr í mánuðinum. Yfirvöld í Rússlandi hafa hvatt Gagloev til að tryggja áframhaldandi tengsl svæðisins við Rússland frá því að hann náði kjöri. 

Suður-Ossetía var í brennidepli stríðs Rússlands og Georgíu árið 2008. Í kjölfar stríðsins viðurkenndi Rússland svæðið, auk annars svæðis aðskilnaðarsinna Abkhazia, sem sjálfstæð ríki og kom fyrir herstöðvum á báðum svæðum. Samhugur íbúa Georgíu með íbúum Úkraínu í kjölfar innrásar Rússa í febrúar hefur verið einstaklega mikill. 

Auk þess sem Gagloev hefur ákveðið að hætta við atkvæðagreiðslu um að Suður-Ossetía verði innlimuð í Rússland hefur hann fyrirskipað að „allt samráð við rússnesku hliðina um öll mál sem tengjast frekari innlimun Suður-Ossetíu og Rússlands verði stöðvað án tafar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert