100 ára fékk endurnýjað ökuskírteini

Að minnsta kosti þrír aldargamlir einstaklingar á Ítalíu eru með …
Að minnsta kosti þrír aldargamlir einstaklingar á Ítalíu eru með bílpróf. AFP

100 ára gömul ítölsk kona hefur fengið ökuskírteinið sitt endurnýjað. Er hún að minnsta kosti sú þriðja sem náð hefur þessum aldri sem hefur fengið ökuskírteinið endurnýjað á undanförnum árum á Ítalíu.

Konan, sem heitir Candida Uderzo, fékk nýtt ökuskírteini eftir að hafa staðist augnpróf í ökuskóla.

Hin aldargamla Uderza sagðist líka vel að vera sjálfstæð og vildi ekki að sonur sinn þyrfti að keyra hana um, að því er kemur fram í frétt Guardian.

Les blaðið án gleraugna

„Þessi endurnýjun gleður mig og ég er frjálsari,“ sagði Uderzo við ítalska fréttamiðilinn Corriera della Sera.

„Ég er heppin, ég er 100 ára og að vera svona heilbrigð kemur mér líka á óvart. Ég tek aldrei töflur, bara einstaka svefnlyf af og til.“

Hún sagði sjónina vera svo góða að hún gæti lesið blaðið án þess að nota gleraugu.

Margir Ítalir ná svo háum aldri

Fjöldi aldargamalla einstaklinga býr á Ítalíu, 20,456 samtals og hefur þeim fjölgað verulega frá 2019 en þá voru þeir 14,456. Fjöldinn er með þeim hæsta í Evrópu.

Ekki er þó vitað hve margir þeirra keyra enn. Skírteini þeirra sem hafa náð áttatíu ára aldri eru endurnýjuð á tveggja ára fresti og þurfa ökumenn að framvísa læknisvottorði sem segir að þeir séu andlega og líkamlega færir um að keyra.

Maður á Sikiley sem varð 100 ára í fyrra hélt upp á endurnýjun skírteinisins með því að kaupa sér nýjan bíl. Þá sagðist hann aldrei nokkurn tímann hafa lent í árekstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert