Peter Brook látinn

Peter Brook var einn áhrifamesti leikstjóri 20. aldarinnar.
Peter Brook var einn áhrifamesti leikstjóri 20. aldarinnar. AFP

Breski leikstjórinn Peter Brook lést í gær í París í Frakklandi 97 ára að aldri. Brook var einn áhrifamesti og umdeildasti leikstjóri heims á 20. öldinni.

Peter Stephen Pauk Brook fæddist í Lundunum árið 1925 og hóf feril sinn þar sem leikstjóri eftir að hafa útskrifast úr Oxford-háskóla. Á miðjum þrítugsaldri var Brook strax kominn með orðspor sem einn efnilegasti leikstjóri Bretlands og braut hann ýmsar hefðbundnar reglur í sviðsetningu sinni á bæði þekktum og nýjum verkum.

Hann varð fljótlega leikstjóri í Konunglega Shakespeare-flokknum (the Royal Shakespeare Company) áður en hann tók við Konunglegu óperunni í Lundúnum sem leikhússtjóri á fimmta áratugnum. 

Tilraunasamur og ævintýragjarn

Brook var mjög tilraunasamur og ævintýragjarn í leikstjórn sinni og setti upp verk um allan heim. Má nefna sem dæmi að hann setti upp verk í Lundúnum, New York, París og víðs vegar um Afríku og Asíu.

Á áttunda áratugnum stofnaði hann tilraunaleikhóp sem hann nefndi Alþjóðlega miðstöð rannsókna í leikhúsi (International Centre of Theatre Research) í París. Leikhópurinn setti upp verk um allan heim og gerði ýmsar tilraunir með leikverk og mismunandi uppsetningar.

Sem dæmi má nefna níu klukkutíma verkið Mahabharata sem var byggt á bókmenntum frá Indlandi og hafði gífurleg áhrif. Verkið var þó jafnframt verulega umdeilt. 

Hann vann Tony-verðlaun fyrir bestu leikstjórn árið 1966 fyrir uppsetningu sína á verkinu Maret/Sade eftir Peter Weiss og síðan aftur árið 1971 fyrir uppsetninguna sína á Draumi á Jónsmessunótt eftir Shakespeare.

Brook leikstýrði einnig kvikmyndum og má sem dæmi nefna Lord of the Flies sem kom út 1963 og kvikmyndaða útgáfu af verkinu Lér Konungur eftir Shakespeare. 

Brook var giftur leikkonunni Natöshu Perry frá 1951 þar til hún lést árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert