300.000 í útgöngubann vegna eins smits

Sýnataka úti á götu í Sjanghæ í Kína.
Sýnataka úti á götu í Sjanghæ í Kína. AFP

Um 300.000 íbúar þurfa nú að sæta útgöngubanni í Wugang í Kína eftir að aðeins eitt smit greindist í borginni.

Kína er eitt fárra landa sem enn aðhyllist svokallaða núllstefnu í Covid. Þá er gripið til skyndilegra hertra sóttvarnartakmarkana ef upp koma smit.

Yfirvöld á nokkrum svæðum í Kína hafa sett á ýmsar takmarkanir þar sem þau eiga í erfiðleikum með að koma í veg fyrir ný smit af völdum Ómíkron-afbrigðisins sem breiðist hratt.

Fá helstu nauðsynjar afhentar

Í Wugang var tilkynnt um þriggja daga útgöngubann í kjölfar smitsins og mega því engir af 320.000 íbúum borgarinnar stíga fæti út fyrir hússins dyr þar til því lýkur.

Samkvæmt tilkynningu verða helstu nauðsynjar afhentar íbúunum af yfirvöldum.

Þá er íbúunum óheimilt að ferðast með bílum sínum nema í neyðartilfellum og þurfa þeir þá að afla sér sérstakrar ferðaheimildar.

mbl.is