Breskur sjálfboðaliði féll í Úkraínu

Skaddað hús í Kramatorsk í Úkraínu í kjölfar flugskeytaárásar í …
Skaddað hús í Kramatorsk í Úkraínu í kjölfar flugskeytaárásar í gær. Breskur sjálfboðaliði féll í Úkraínu 24. ágúst og safnar fjölskylda hans nú fé til að flytja megi líkið til Bretlands. AFP/Anatolii Stepanov

Bretinn Craig Mackintosh féll „við skyldustörf“ í Úkraínu 24. ágúst þar sem hann vann sjálfboðaliðastarf sem sjúkraliði. Frá þessu greinir systir hans að sögn breska ríkisútvarpsins BBC en hún stendur nú fyrir fjársöfnun á vefsíðunni GoFundMe í því augnamiði að koma jarðneskum leifum bróður síns til fósturjarðarinnar.

„Bróðir okkar sýndi þá hetjulund að bjóðast til að halda til Úkraínu sem sjálfboðaliði og stuðla að björgun mannslífa í stríðshrjáðu landi“ skrifar systirin, Lorna Mackintosh, á söfnunarsíðuna. „Þessi óeigingjarni maður er nú fastur í úkraínsku líkhúsi og engin aðstoð fæst við að koma honum heim,“ ritaði hún þar enn fremur.

„Verið svo væn að aðstoða okkur“

Kostnaðurinn við að flytja líkið til Bretlands er um 4.000 pund, jafnvirði um 660.000 íslenskra króna, og kveðst systirin leggja allt í sölurnar til að af flutningnum megi verða. „Hann fórnaði lífi sínu til að bjarga öðrum og nú þarf hann að komast heim til að njóta þess umbúnaðar sem honum er samboðinn í faðmi fjölskyldu og vina. Verið svo væn að aðstoða okkur við að flytja hetjuna okkar heim,“ skrifar Lorna Mackintosh.

Breska utanríkisráðuneytið staðfestir við PA-fréttastofuna að því sé kunnugt um andlát Mackintosh í Úkraínu og muni gera sitt til að styðja fjölskylduna auk þess að setja sig í samband við úkraínsk yfirvöld til að liðka fyrir flutningnum til Bretlands.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka