„Gæti orðið mannskæðasti fellibylur í sögu Flórída“

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti varaði við því í dag að fellibylurinn Ian gæti komið til með að verða mannskæðasti stormur í sögu Flórída.

„Þetta gæti orðið mannskæðasti fellibylur í sögu Flórída,“ sagði forsetinn eftir undirbúningsfund í höfuðstöðvum FEMA í Washington.

Sagði hann ekki enn komið á hreint hversu margir hefðu þegar látist í fellibylnum, en að hann myndi sjálfur leggja leið sína til ríkisins um leið og aðstæður leyfðu.

Bætti Biden við að hann hygðist ferðast til Púertó Ríkó, sem enn er í sárum eftir fellibylinn Fíónu.

Frá Flórída.
Frá Flórída. YAMIL LAGE

Björgunaraðgerðir víða í gangi

Þá hrósaði forsetinn björgunarsveitum í Flórída fyrir það risavaxna verkefni sem við þeim blasir á svæðum sem fellibylurinn hefur lagt í rúst.

„Leit og björgunaraðgerðir hófust rétt fyrir dögun í morgun, fyrir fólk sem er innlyksa og þau sem eru illa haldin,“ sagði hann.

Landhelgisgæsla Bandaríkjanna hefur hleypt af stað 16 þyrlum, sex flugvélum og 18 bátum, sagði forsetinn um þær björgunaraðgerðir sem nú eru í gangi.

Biden beindi því næst orðum sínum að Flórídabúum og sagði þeim að landið allt fyndi til með þeim.

mbl.is