Fjölskylda myrt í Kaliforníu

Bandarískur lögreglubíll.
Bandarískur lögreglubíll. AFP

Þriggja manna fjölskylda og einn ættingi fundust látin í bandaríska ríkinu Kaliforníu í gær.

Aroohi Dheri, sem var átta mánaða og foreldrum hennar Jalseen Kaur (27 ára) og Jasdeep Singh (36 ára) var rænt eftir að foreldrarnir mættu til vinnu í vöruflutningafyrirtæki í Merced-sýslu í norðurhluta Kaliforníu á mánudaginn, að sögn lögreglustjórans Vern Warnke.

Frænda barnsins, hinum 39 ára Amandeep Singh, var einnig rænt.

Starfsmaður bóndabýlis fann líkin utan alfaraleiðar, að sögn ABC.

„Við erum eyðilögð“

Lögreglustjórinn sagði atburðinn „hræðilega tilgangslausan“.  Einn var handtekinn á þriðjudaginn í tengslum við málið, auk þess sem lögreglan birti myndskeið úr eftirlitsmyndavél í tengslum við mannránið.

„Við erum eyðilögð, í algjöru sjokki og „deyjum“ smám saman hvert einasta augnablik,“ sagði ættingi á blaðamannafundi í gær áður en líkin fundust.

Með hendur bundnar

Í eftirlitsmyndavélinni sést þegar maðurinn sem var handtekinn dregur upp byssu og gengur inn í bygginguna þar sem fyrirtækið er til húsa. Síðar sést hann ganga þaðan út bakdyramegin ásamt þeim Jasdeep og Amandeep Singh sem eru með hendur bundnar fyrir aftan bak.

Þeir ganga inn í pallbíl sem ekur í burtu. Bíllinn snýr síðan aftur og fer maðurinn þá inn í bygginguna. Innan við mínútu síðar fara Jasleen Kaur og átta mánaða barnið hennar þaðan út. Að því loknu sést pallbíllinn aka í burtu.

Engir fleiri voru að störfum í fyrirtækinu á þessum tíma.

mbl.is