Enn slakað á sóttvarnaaðgerðum í Kína

Heilbrigðisstarfsmenn bíða eftir að geta tekið sýni úr farþegum í …
Heilbrigðisstarfsmenn bíða eftir að geta tekið sýni úr farþegum í lestarstöð í Sjanghæ. AFP/Hector Retamal

Yfirvöld í Kína halda áfram að slaka á sóttvarnaaðgerðum en rúm vika er nú liðin frá því að mótmæli brutust út víða um landið.

Geta nú flestir íbúar landsins sem greinast með Covid-19 verið í sóttkví á heimili sínu í stað þess að dvelja í húsnæði á vegum hins opinbera, samkvæmt nýjum reglum sem heilbrigðisyfirvöld í landinu kynntu í dag.

Þá hafa yfirvöld einnig afnumið kröfur um PCR-próf en sýna þurfti neikvæða niðurstöðu úr þeim til að fá aðgengi að ýmsum opinberum stöðum. Krafan verður þó enn í gildi fyrir skóla og sjúkrahús.

Strangar sóttvarnaaðgerðir í gegnum faraldurinn

Í gegnum faraldurinn hafa strangar sóttvarnaaðgerðir og samkomutakmarkanir verið í gildi í Kína þar sem yfirlýst markmið stjórnvalda hefur verið að útrýma Covid-smitum í landinu. Útgöngubanni hefur ítrekað verið beitt í borgum og bæjum þegar fáein smit hafa greinst. 

Sú stefna hefur þó ekki gengið sem skyldi og hefur gríðarleg óánægja blossað upp meðal Kínverja nú þegar langflest ríki í heiminum hafa skilið við samkomutakmarkanir.

Í næstsíðustu viku brutust út sjaldséð mótmæli víða um landið þar sem Kínverjar kröfðust þess að slakað yrði á sóttvarnaaðgerðum. Þá kölluðu sumir mótmælendur jafnframt eftir því að forsetinn myndi víkja.

Yfirvöld virðast nú vera að svara ákalli mótmælenda en þetta er stærsta skrefið sem sést hefur hingað til þegar kemur að því að slaka á takmörkunum.

Útgöngubann gildi ekki fyrir borg

Í nýjum reglum heilbrigðisyfirvalda sem birtar voru í dag kemur jafnframt fram að útgöngubanni verði ekki beitt nema á vel skilgreind svæði, til að mynda ákveðinn vinnustað eða fjölbýlishús. Ekki verði hægt að beita slíku úrræði fyrir heilar borgir eða bæi.

Þá verði ekki hægt að beita útgöngubanni í lengur en fimm daga ef engin ný smit greinast. Ekki má heldur loka skólum nema að smit séu í mikilli útbreiðslu á skólalóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert