Norðmenn senda stríðsvagna

Loforð um Leopard 2-skriðdreka streyma nú til Úkraínumanna.
Loforð um Leopard 2-skriðdreka streyma nú til Úkraínumanna. AFP/Patrik Stollarz

Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, tilkynnti fyrr í kvöld að Norðmenn myndu senda Leopard 2A4-orrustuskriðdreka til Úkraínu. Tilkynning Norðmanna kom í kjölfar þess að Þjóðverjar tilkynntu að þeir myndu senda Leopard 2-skriðdreka til Úkraínu, og um svipað leyti og Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi frá því að Bandaríkjamenn myndu senda Abrams-skriðdrekann þangað.  

Gram ræddi við norska ríkisútvarpið NRK um ákvörðun sína, en hann vildi ekki segja hversu marga skriðdreka (n. stridsvogner) Norðmenn myndu senda. Norskir fjölmiðlar greindu hins vegar frá því í gær að það kæmi til greina að gefa Úkraínu átta Leopard-2 skriðdreka af þeim 36 sem landið hefur yfir að ráða. 

Gram sagði við NRK að úkraínskir hermenn yrðu þjálfaðir í notkun skriðdrekanna. Spurður hvort ákvörðunin myndi draga úr öryggi Noregs sagði hann að það skipti miklu máli fyrir Norðmenn að Pútín Rússlandsforseti yrði stöðvaður í Úkraínu.

Auk þeirra þriggja ríkja sem tilkynntu um skriðdrekasendingar sínar í dag hafa Pólverjar og Bretar þegar lýst yfir að þeir muni senda orrustuskriðdreka til Úkraínu. Þá hafa stjórnvöld í Svíþjóð, Hollandi og á Spáni sagst vera reiðubúin til að senda skriðdreka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert