Þrjár skotárásir og 19 látnir á 44 tímum

Minningarathöfn var haldin í Monterey Park daginn eftir að ellefu …
Minningarathöfn var haldin í Monterey Park daginn eftir að ellefu manns voru skotnir til bana. AFP

Á 44 klukkutímum í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum urðu þrjár skotárásir þar sem samtals nítján manns létu lífið. Fréttastofa CNN greinir frá þessu.

Fyrsta skotárásin varð í úthverfi Monterey Park þar sem fólk á aldrinum frá 57 til 76 ára var skotið til bana. Þau höfðu safnast saman á skemmtistað til að fagna áramótum í Kína en ellefu manns létu lífið í árásinni. Árásamaðurinn var 72 ára karlmaður en hann svipti sig síðan sjálfur lífi í sendiferðabíl þar sem hann fannst daginn eftir árásina.

40 skotárásir það sem af er ári

Stuttu seinna voru sjö aðrir skotnir til bana í smábæ að nafni Half Moon Bay í norðurhluta Kaliforníu. Þar var karlmaður á sjötugsaldri að verkum sem starfaði á búgarði en fórnarlömbin voru samstarfsmenn hans. Þriðja skotárásin var daginn eftir í borginni Oakland þar sem einn var skotinn til bana og sjö særðust. 

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, var á sjúkrahúsi með þeim sem særðust í skotárásinni í Monterey Park þegar hann var dreginn til hliðar á fund vegna skotárásarinnar í smábænum Half Moon Bay. 

Newsom sagði á Twitter að um væri að ræða áföll ofan í áföll hvað eftir annað. Þó að árið sé ný hafið hafa nú þegar orðið 40 skotárásir í Bandaríkjunum en það nemur um tæplega tveim skotárásum á dag. Aldrei hafa verið fleiri skotárásir þar í landi í byrjun árs og er því um að ræða skæðustu byrjun árs í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert