Börnin „sennilega“ á lífi í frumskóginum

Yfir 200 hermenn leita nú að börnunum fjórum, en þau …
Yfir 200 hermenn leita nú að börnunum fjórum, en þau eru talin vera á lífi. Mánuður er síðan vélin brotlenti. AFP/Kólumbíski herinn

Fjögurra barna er enn saknað í Amazon-frumskóginum í Kólumbíu. Þeirra hefur verið leitað síðan 1. maí en þau voru um borð í flugvél sem fórst á svæðinu. Allir fullorðnir um borð létust í slysinu en herinn telur að börnin séu enn á lífi eftir mánuð tæpan mánuði í frumskóginum. 

Börnin eru 13, 9, 4 ára og 11 mánaða. Talið er að börnin hafi farið inn í frumskóginn eftir að vélin brotlenti. 

Gervihnattamyndir gefa vísbendingar um leið barnanna í frumskóginum og hafa leitarflokkar fundið eigur þeirra, skjól og hálfétna ávexti. 

Í síðustu viku fundust skór og bleia. 

Heimamenn aðstoða herinn við leitina að börnunum.
Heimamenn aðstoða herinn við leitina að börnunum. AFP/Kólumbíski herinn

Myndu finnast ef þau væru látin

„Miðað við þessar vísbendingar teljum við börnin á lífi,“ sagði Pedro Sanchez, yfirmaður í hernum, í samtali við W Radio. 

„Ef þau væru látin, þá væri auðvelt að finna þau, því þau væru kyrr,“ sagði hann og bætti við að leitarhundar hefðu getað þefað þau uppi. 

Um 200 hermenn leita nú barnanna á svæðinu auk heimamanna. Þekking heimamanna á svæðinu og náttúrunni hjálpar í frumskóginum. Leitarsvæðið spannar eina 320 ferkílómetra. 

Sanchez sagði að það væri skringilegt að börnin hafi ekki ákveðið að vera um kyrrt á einum tilteknum stað þrátt fyrir að leitarvélar hafi látið 10 þúsund miðum með skilaboðum yfir skóginn. Leiðbeiningarnar eru á spænsku og frummáli barnanna og þeim sagt að halda kyrru fyrir. 

Á leiðbeiningunum eru einnig góð ráð um hvernig megi lifa af í skóginum. Þá hefur herinn einnig sent mat og vatn niður í skóginn. 

mbl.is