Hafi hindrað framgang réttvísinnar

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er meðal annars sagður vera …
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er meðal annars sagður vera ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fyrir að hafa meðhöndlað skjöl eftir að forsetatíð hans lauk. AFP/Saul Loeb

Jim Trusty, lögmaður Donalds Trump, segir ákæruna gegn skjólstæðingi sínum vera í sjö liðum hið minnsta. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur ekki enn staðfest að Trump hafi verið ákærður. 

Trump, sem er fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, greindi sjálfur frá því á samfélagsmiðli sínum að hann hafi verið ákærður í gærkvöldi. Lögmaður hans staðfesti við CNN í gær að svo væri í pottinn búið. 

Trump er ákærður fyrir að hafa meðhöndlað gögn eftir að forsetatíð hans lauk.

Trusty staðfestir að svo sé og segir að ákæran snúi að því sem og að Trump hafi vísvitandi sett fram rangar staðhæfingar, hindrað framgang réttvísinnar og samsæri.

Fyrir dóm á þriðjudag

Nánari upplýsingar um ákæruna hafa ekki komið fram en bandaríski fjölmiðillinn New York Times segist hafa heimildir fyrir því að ákæran snúi að því að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar. 

Trump segist sjálfur eiga að koma fyrir dóm í Miami í Flórída næsta þriðjudag, daginn fyrir afmælisdag hans. Þá verður hann 77 ára en Trump sækist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins til að verða frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum á næsta ári. 

Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að helst muni reyna á saksóknara að sýna og sanna að Trump hafi vísvitandi gert þá hluti sem hann er sakaður um.

Ef hann verði sakfelldur eigi hann yfir höfði sér fangelsisdóm, en þó ekki lengri en 20 ára dóm. 

Enginn lagabókstafur í Bandaríkjunum kemur þó í veg fyrir að Trump haldi áfram framboði sínu þó hann hafi verið ákærður.

mbl.is