Bandaríkin og Kína bæta samskiptin

Frá för Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Kína nú í …
Frá för Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Kína nú í júní. AFP

Bandaríkin og Kína eru að opna fyrir nýjar samskiptagáttir til þess að ræða erfið málefni. Er það talið til marks um að samskipti ríkjanna tveggja fari batnandi eftir að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti Peking nú í júní.

Financial Times hefur heimildir fyrir því að ráðamenn í Peking og Washington hafi komið á fót starfshópum sem eiga að fást við málefni sem snertir Kyrrahafssvæðið, einkum í því sem kemur að sjóleiðum um svæðið.

Mörg óleyst deilumál

Spennan í ríkjunum tveimur hefur einkum orsakast vegna ógnandi hegðunar Alþýðulýðveldisins í garð Taívan og vegna þess að Kínverjar hafa ekki enn fordæmt innrás Rússa í Úkraínu.

Kínverjar hafa áhyggjur af umsvifum Bandaríkjanna á hafsvæðum nálægt sér og vegna þess að settar hafa verið strangari reglur um hvað megi flytja frá Bandaríkjunum til Kína. 

Hvíta húsið ætlar að biðja Bandaríkjaþing að samþykkja fjárveitingar fyrir vopnum sem senda skuli til Taívan. Það væri í fyrsta skipti sem bandarískir skattgreiðendur þyrftu að standa straum af vopnasendingum til eyjunnar.

Talið er að Joe Biden Bandaríkjaforseti muni gefa út tilskipun sem hefta muni bandarískar fjárfestingar í fyrirtækjum í Kína, sem tengjast hernaði með einhverjum hætti.

Samkeppni leiði ekki til átaka

Starfshóparnir, sem fyrr eru nefndir, eiga að fást við deilumál af þessum toga. Bandarísk stjórnvöld ræddu fyrirkomulag viðræðna við Yang Tao, háttsettan erindreka kínverskra stjórnvalda, í Washington nú fyrr í vikunni.

Joe Biden og Xi Jingping, forseti Kína, hittust á Balí í nóvember á síðasta ári og ræddu þá um að byggja samband sitt upp að nýju og forðast það að samkeppni ríkjanna tveggja leiði til ófriðar.

Ákveðið bakslag varð í samskiptum ríkjanna eftir að kínverskur njósnabelgur flaug yfir bandarískt landssvæði. Síðan þá hafa bandarísk fyrirmenni heimsótt Kína, svo sem Janet Yellen, fjármálaráðherra og Gina Raimondo, viðskiptaráðherra, heldur bráðlega í austurveg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert