Stal senunni af kappræðunum

Það má segja að Trump hafi stolið senunni en viðtalið …
Það má segja að Trump hafi stolið senunni en viðtalið var sýnt á samfélagsmiðlinum X (Twitter) á sama tíma og kappræðurnar. AFP/Octavio Jones

„Á ég að sitja þarna í einn eða tvo klukkutíma, eða hvað sem þær vara lengi, og vera áreittur af fólki sem ætti ekki einu sinni að vera að bjóða sig fram til forseta?“ spurði Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, sem sækist enn á ný eftir þessu valdamesta embætti í heimi.

Trump fór í viðtal hjá Tucker Carlson, íhaldsmanni og fyrrverandi spjallþáttastjórnanda á sjójnvarpsstöðinni Fox News, á sama tíma og fyrstu kappræður repúblíkana fóru fram í Milwaukee í Wisconsin í nótt.

Það má segja að Trump hafi stolið senunni en viðtalið var sýnt á samfélagsmiðlinum X (Twitter) á sama tíma og kappræðurnar.

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP/Brendan Smialowski

„Verri andlega en líkamlega“

Forsetinn fyrrverandi sagði það ekki skynsamlegt að taka þátt í kappræðum sem þessum þegar hann væri hvort sem er sigurstranglegastur í könnunum. Í viðtalinu sagði Trump að keppinautur hans og ríkisstjóri í Flórída, Ron DeSantis, væri glataður. Hann sagðist þá vera mjög vonsvikinn með fyrrum varaforseta sinn og keppinaut, Mike Pence, og kallaði fyrrum ríkisstjóra New Jersey, Chris Christie, brjálæðing.

Hann kallaði Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, þann versta í sögu landsins og sagði hann líklega ekki verða kandídat demókrata í komandi kosningum.

„Ég er ekki viss um að hann komist að hliðinu en maður veit aldrei. Ég held að hann sé verri andlega en líkamlega og líkamlega er hann nú ekki beint þríþrautarkappi,“ sagði Trump í viðtalinu.

Carlson spurði Trump út í möguleikann á borgarastríði í Bandaríkjunum. Hann svaraði:

„Ég veit það ekki. Ég hef ekki séð slíka ástríðu áður og ég hef ekki séð slíkt hatur áður og það er sennilega óhagfelld samsetning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka