Forsetahundurinn bitið fólk ellefu sinnum

Forsetahundurinn Commander hefur bitið fólk ellefu sinnum, svo vitað sé …
Forsetahundurinn Commander hefur bitið fólk ellefu sinnum, svo vitað sé til. AFP/Saul Loeb

Commander, annar af tveimur hundum Joes Biden forseta Bandaríkjanna, beit leyniþjónustufulltrúa í Hvíta húsinu á mánudag. Er þetta ellefta tilvikið, sem vitað er um, þar sem Commander bítur manneskju í Hvíta húsinu eða á heimili Biden-hjónanna.

Commander er tveggja ára þýskur fjárhundur.

CNN hefur eftir fjölmiðlafulltrúa bandarísku leyniþjónustunnar, Anthony Guglelmi, að atvikið hafi átt sér stað um klukkan átta um kvöldið og að leyniþjónustufulltrúinn hafi fengið viðeigandi meðferð í kjölfarið.

Commander hefur bitið frá sér bæði í Hvíta húsinu og á heimili Biden-hjónanna í Delaware Í nóvember 2022 þurfti lögregluþjónn að leita sér læknisaðstoðar eftir að hafa verið bitinn af Commander.

Er í þjálfun

Í tilkynningu frá Hvíta húsinu í júlí sagði að forsetahjónin væru að vinna í því að þjálfa Commander og innleiða nýtt kerfi fyrir hann. Var þá sagt að í Hvíta húsinu væri umhverfið oft ófyrirsjáanlegt, ekki síst fyrir ungan hund.

Major, annar hundur Bidens, hefur einnig bitið fólk í Hvíta húsinu. Hann var fluttur úr forsetabústaðnum í Washington DC til Delaware vegna þessa. Commander kom í stað hans árið 2021.

Commander á Truman-svölum Hvíta hússins.
Commander á Truman-svölum Hvíta hússins. AFP/Saul Loeb
mbl.is