Skutu niður úkraínska dróna og eldflaugar

Mynd af byggingu sem Rússar sprengdu í gær í Úkraínu …
Mynd af byggingu sem Rússar sprengdu í gær í Úkraínu í drónaárás sinni á Kænugarð. AFP/Úkraína

Rússar segjast hafa skotið niður fjóra úkraínska dróna víðs vegar um Rússland auk tveggja úkraínskra eldflauga yfir Azov-hafi á leið til Rússlands.

„Loftvarnir eyðilögðu fjóra úkraínska dróna yfir yfirráðasvæði Bryansk-, Smolensk- og Tula-héraðanna,“ sagði varnarmálaráðuneyti Rússlands í yfirlýsingu. Rússland hafði einnig gefið út yfirlýsingu í nótt um að hafa skotið niður nokkra dróna nálægt Moskvu.

„Rússneskar loftvarnir fundu og eyðilögðu tvær úkraínskar eldflaugar á lofti yfir Azov-hafi,“ sagði í yfirlýsingu rússneska varnarmálaráðuneytisins í morgun. Á sama tíma sagði Úkraína að loftvarnir þeirra hefðu skotið niður átta rússneska dróna.

Þetta kemur í kjölfar drónaárásar Rússlands á Kænugarð í Úkraínu í gær sem úkraínsk stjórnvöld segja hafa verið þá stærstu á borgina frá upphafi stríðsins. Um var að ræða 75 dróna sem Rússarnir siguðu á Kænugarð með þeim afleiðingum að fimm særðust, þar á meðal 11 ára gömul stúlka, að sögn úkraínskra stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert