Hver myrti dóttur þeirra þá?

Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995 …
Birgitte Tengs fannst hrottalega myrt á Karmøy 6. maí 1995 og gekk rannsókn málsins á afturfótunum frá upphafi. Frændi hennar var dæmdur fyrir ódæðið árið 1997 en sýknaður í áfrýjunarmáli 1998. Í gær var næsti sakborningur, Johny Vassbak, sýknaður fyrir Lögmannsrétti Gulaþings sem snupraði lögreglu og ákæruvald fyrir að einblína á sekt eins manns og hætta ekki fyrr en hann héngi í hæsta gálga. Ljósmynd/Úr einkasafni

Johny Vassbakk, sakborningurinn í enduruppteknu sakamáli vegna hrottalegs dráps Birgitte Tengs á Karmøy í Rogaland í Noregi í maí 1995, brotnaði saman og grét í dómsal Lögmannsréttar Gulaþings í gær við dómsuppkvaðningu og þá niðurstöðu meirihluta fjölskipaðs dóms, fimm dómara af sjö, að hann væri saklaus fundinn og því frjáls maður eftir að hafa setið rúmlega tvö ár í gæsluvarðhaldi.

Svo sem lesa má í frétt handan hlekkjarins hér að neðan hlaut Vassbakk 17 ára dóm í Héraðsdómi Haugalands og Sunnhörðalands í Haugesund í byrjun febrúar eftir gríðarlega umfangsmikla sönnunarfærslu ákæruvaldsins sem í gær var léttvæg fundin fyrir lögmannsrétti.

Helsta sönn­un­ar­gagnið var erfðaefni, Y-litn­ing­ur, sem greind­ist í blóðbletti sem fannst á sokka­bux­um Tengs. Taldi ákæru­valdið að þegar Vass­bakk dró bux­ur Tengs niður hafi hann haft blóð henn­ar á hönd­un­um og erfðaefni af húð hans fest í blóðinu. Efnið greind­ist hins vegar ekki fyrr en á síðustu árum eft­ir að tækni í erfðarann­sókn­um saka­mála hafði fleygt fram frá því 1995.

Johny Vassbak hefur haldið sakleysi sínu fram frá handtökunni í …
Johny Vassbak hefur haldið sakleysi sínu fram frá handtökunni í september 2021 en framfarir í erfðarannsóknum gerðu það að verkum að einn blóðdropi á sokkabuxum, auk framburðar vitna, varð honum að falli fyrir héraðsdómi í febrúar. Lögmannréttur Gulaþings er á öðru máli. Ljósmynd/Úr einkasafni

Með böggum hildar

„Okkur kemur sýknudómurinn lítið á óvart,“ segir John Christian Elden lögmaður í samtali við mbl.is en Elden var réttargæslumaður foreldra hinnar myrtu eftir að rannsókn málsins var tekin upp á ný og ákært á nýjan leik auk þess sem Elden býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á allri rannsóknarsögu málsins.

„Foreldrarnir hafa verið slegnir efa um sönnunargögnin allt frá upphafi og fallast á sýknudóminn auk þess sem þau eru með böggum hildar yfir því að málið standi óleyst eftir að frændinn var sýknaður árið 2022 og nú nýi sakborningurinn í dag [gær],“ heldur Elden áfram.

Segir hann málið þyngja foreldrunum nú eins og allar götur síðan dóttir þeirra fannst hrottalega myrt að morgni 6. maí 1995. „Dómurinn er mjög nákvæmur og rök dómenda sannfærandi um það hvers vegna lögreglan grunaði rangan mann um græsku auk þess sem það teljist ekki einu sinni líklegt að hann hafi drýgt ódæðið. Nú þarf lögreglan að hefjast handa á ný á byrjunarreit og getur engan útilokað fyrr en fullrannsakað er,“ segir Elden að lokum.

John Christian Elden hefur starfað við lögmennsku í þrjá áratugi …
John Christian Elden hefur starfað við lögmennsku í þrjá áratugi og er þekktasti verjandi Noregs með mörg stærstu sakamál landsins á ferlinum. Hann var réttargæslumaður foreldra Birgitte Tengs í málinu sem hér er til umfjöllunar. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Leiddu frændann inn í tilbúinn raunveruleika

Lögmaðurinn, sem er einn annálaðasti verjandi Noregs, ræddi ítarlega við Morgunblaðið í desember í fyrra og fór yfir nokkur þekkt norsk sakamál sem hann hefur komið að. Fór hann þar í saumana á máli Birgitte Tengs og gerði grein fyrir því hvernig lögreglan þjarmaði að frænda hennar, er hún hafði grunaðan, leiddi hann smám saman inn í ákveðinn raunveruleika og taldi honum trú um að hann hefði myrt frænku sína þar til hann að lokum féll saman og játaði, rétt eins og íslenska lögreglan taldi sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálum trú um að þeir væru sekir og beittu þá harðræði þar til þeir sáu sína sæng upp reidda og játuðu á sig afbrot sem íslenska ríkið mátti síðar súpa dýrkeypt seyði af.

Lásu dómendur við Lögmannsrétt Gulaþings lögreglu og ákæruvaldi pistilinn í röksemdafærslu sinni í gær og bentu á að sérfræðingar í vitnaleiðslum og yfirheyrslum, svo sem As­bjørn Rachlew, kenn­ari við norska lög­reglu­há­skól­ann, rann­sak­andi við Mann­rétt­inda­stofn­un Há­skól­ans í Ósló og fremsti sér­fræðing­ur Nor­egs í yf­ir­heyrslu­tækni, hefðu haft rétt fyrir sér, lögreglan hefði fundið sér sakborning og ákveðið að sanna sekt hans sama hvað tautaði og raulaði.

Litu staðfastlega fram hjá öðrum möguleikum

Segir lögmannsrétturinn í forsendum sínum að fundur erfðaefnisins hefði markað rannsókn lögreglunnar farveg, eftir að það kom fram hafi lögregla túlkað öll önnur sönnunargögn með tilliti til þess að þau samræmdust þeirri mynd sem hún hafði þegar gert sér af atburðarásinni.

Benda dómendur enn fremur á að lögregla og ákæruvald hafi kosið að líta alfarið fram hjá öðrum möguleikum en Vassbakk. Erfðaefni fleiri manna á sokkabuxum myrtu og hár af minnst fimm öðrum manneskjum, þar á meðal á höndum hennar, hafi verið látið sem vindur um eyru þjóta. Vassbakk hafi verið sá seki og hann einn kæmi til greina að mati ákærenda.

„Á meðan ekki er vitað hverjum önnur líffræðileg ummerki tilheyra á lögmannsrétturinn bágt með að skilja hvernig slík vinnubrögð geta samræmst forsvaranlegu mati á sönnunargögnum,“ segir í málsástæðum, „rétturinn getur ekki lagt vangaveltur gegn ákærða til grundvallar dómi. Slíkt brýtur gegn þeirri meginreglu að sönnunarbyrðin hvíli á ákæruvaldinu,“ segir þar enn fremur.

Blóðbletturinn á sokkabuxum Birgitte Tengs, sem rannsakaður var í ranni …
Blóðbletturinn á sokkabuxum Birgitte Tengs, sem rannsakaður var í ranni einnar fremstu réttarmeinafræðirannsóknarstofu Austurríkis, var sönnunargagnið sem lögregla og saksóknari ákváðu að væri hið rétta þrátt fyrir erfðaefni frá fjölda annarra, þar á meðal hári fimm manneskja sem meðal annars mátti finna á báðum höndum líks Tengs. Ljósmynd/Kripos

„Síðustu tvö árin hafa verið skjólstæðingi mínum martröð,“ segir Stian Bråstein, verjandi Vassbakk, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og kveður málinu ekki lokið eftir tveggja ára gæsluvarðhald saklauss manns.

„Honum er gríðarlega létt, við ræddum saman rétt í þessu. Við megum þó ekki gleyma því að málið snýst um unga stúlku sem var rænd lífi sínu og hugur hans er hjá ástvinum hennar,“ segir Bråstein.

Saksóknari grét hvorki né hló

Engin gleðitár prýddu hins vegar hvarma Thale Thomseth héraðssaksóknara í gær er NRK náði tali af henni og kveðst hún ekki skilja þá niðurstöðu lögmannsréttarins að ákæruvaldið hafi gengið í gildru eigin sönnunargagna, hver einasti angi málsins hafi verið gaumgæfður í þaula.

„Við munum nú fara vandlega yfir dóminn og skoða forsendur hans,“ segir hún og bendir á að fjölskipaður lögmannsréttur hafi verið klofinn í afstöðu sinni. „Við getum heldur ekki litið fram hjá því að sönnunarkrafan í refsimálum er mjög ströng,“ segir héraðssaksóknari enn fremur.

Hvað sem hver segir er staðan í voveiflegu manndrápsmáli ungu stúlkunnar á Karmøy, Birgitte Tengs, enn sú sama og hún var að morgni 6. maí árið 1995 – að liðnum 28 árum veit enginn hver vildi hana feiga þessa vornótt við vesturströnd Noregs.

NRK
VG
TV2
Aftenposten
Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert