Þrír látnir og einn alvarlega særður eftir árásina

Lögreglumenn að störfum skammt frá háskólanum.
Lögreglumenn að störfum skammt frá háskólanum. AFP/Mingson Lau/Getty

Þrír eru látnir og einn er alvarlega særður eftir skotárásina í Nevada-háskóla í bandarísku borginni Las Vegas í gær.

„Það er staðfest að þrjú fórnarlambanna eru látin,” sagði Kevin McMahill, lögreglustjóri í Las Vegas, á blaðamannafundi, en árásarmaðurinn var skotinn til bana. 

Fjórða fórnarlambið særðist alvarlega í árásinni en ástand þess er nú stöðugt.

Lögreglustjórinn Kevin McMahill á blaðamannafundi.
Lögreglustjórinn Kevin McMahill á blaðamannafundi. AFP/Ethan Miller/Getty

Ekki hefur komið fram hver árásarmaðurinn var en CNN og Los Angeles Times sögðu að samkvæmt heimildum hefði 67 ára háskólaprófessor sem tengist skólum í ríkjunum Georgíu og Norður-Karólínu verið að verki. Ekki er ljóst hvaða tengsl hann hafði við Nevada-háskóla þar sem árásin var gerð.

Joe Biden Bandaríkjaforseti fordæmdi árásina í yfirlýsinu og sagði hana „hryllilegt byssuofbeldi”.

Nevada-háskóli í Las Vegas.
Nevada-háskóli í Las Vegas. AFP/Mingson Lau/Getty

Lögreglan kom á vettvang nokkrum mínútum eftir að tilkynning barst um skotárás klukkan 11.45 að staðartíma, eða klukkan 19.45 að íslenskum tíma, að sögn McMahill.

Árásarmaðurinn var fljótlega skotinn til bana af tveimur lögreglumönnum.

Byssumaðurinn hóf árás sína utandyra þar sem nemendur höfðu safnast saman.

Fólk var í áfalli eftir árásina.
Fólk var í áfalli eftir árásina. AFP/Ronda Churchill

„Nemendur voru í leikjum og að borða. Það var búið að stilla þar upp borðum svo að þeir gætu spilað Legó,” sagði McMahill.

„Ef það hefði ekki verið fyrir þessa hetjudáð lögreglumannanna sem komu á vettvang hefðu mun fleiri verið drepnir í viðbót,” bætti hann við.

Skilaboð til stuðnings háskólanum og Las Vegas á Allegiant-leikvanginum í …
Skilaboð til stuðnings háskólanum og Las Vegas á Allegiant-leikvanginum í Las Vegas. AFP/Mario Tama/Getty
AFP/Ronda Churchill
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert