Kallar eftir tafarlausu vopnahléi

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að ofbeldisverk Hamas-hryðjuverkasamtakanna gæti aldrei réttlætt „sameiginlegar refsingar“ á Palestínumönnum en Ísraelsmenn hafa hert mjög sókn sína á Gasasvæðinu með þeim afleiðingum að fjöldi fólks hefur látist.

Guterres boðaði til neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en stríð á milli Ísraelsmanna og Hamas-hryðjuverkasamtakanna hefur nú staðið yfir í rúma tvo mánuði og hafa 17.170 Palestínumenn fallið í valinn, flest konur og börn.

„Um 130 gíslar eru enn í haldi. Ég kalla eftir tafarlausri og skilyrðislausri lausn þeirra, sem og mannúðlegri meðferð þeirra og heimsóknum frá Alþjóða Rauða krossinum þar til þeir verða látnir lausir," sagði Guterres við fréttamenn í dag.

Líkin hrannast upp á Gasa eftir linnulausar árásir Ísraelshers.
Líkin hrannast upp á Gasa eftir linnulausar árásir Ísraelshers. AFP

Ísraelsmenn, sem hafa heitið því að tortíma Hamas-hryðjuverkasamtökunum, hafa gert stanslausar loftárásir á Gasa frá því Hamas réðst inn í suðurhluta Ísraels þann 7. október að frátöldu einnar viku vopnahléi. Vígamenn Hamas drápu 1.200 manns og tóku á þriðja hundrað manns í gíslingu og eru 138 þeirra enn í haldi.

Skelfingu lostinn yfir fregnum um kynferðisofbeldi

Ég fordæmi þessar árásir og ég er skelfingu lostinn yfir fregnunum um kynferðisofbeldi. Það er engin möguleg réttlæting fyrir því að drepa um 1.200 manns vísvitandi, þar af 33 börn, særa þúsundir til viðbótar og taka hundruð gísla,“ segir Guterres.

Stór svæði á Gasa hafa verið lögð í rúst og segja Sameinuðu þjóðirnar að um 80 prósent íbúanna hafi verið á vergangi, vegna skorts á mat, eldsneyti, vatni og lyfjum, ásamt hættu á sjúkdómum.

„Alþjóðleg mannúðarlög fela í sér þá skyldu að vernda óbreytta borgara og fara eftir meginreglum um meðalhóf og varúð,“ sagði Guterres og kallaði eftir tafarlaust vopnahléi.

Stór svæði á Gasa eru í rúst.
Stór svæði á Gasa eru í rúst. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert