Vissi ekki að þing kæmi saman í þinghúsi

Bandaríska þinghúsið í Washington.
Bandaríska þinghúsið í Washington. AFP

Philip Sean Grillo, frambjóðandi í þingsæti George Santos, var sakfelldur í vikunni fyrir þátttöku sína í óeirðunum við þinghús Bandaríkjamanna á Capitol-hæðinni í Washington í janúar 2021.

Í umfjöllun fréttastofu NBC segir að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafi vakið athygli á því að Grillo hafi í vitnisburði sínum sagst ekki hafa vitað að þing kæmi saman í þinghúsinu.

Sóttist eftir sæti Santos

Santos vék frá störfum sem fulltrúi Repúblikanaflokks á þingi í síðustu viku eftir að hann var ákærður í þrettán liðum, þar á meðal fyrir auðkennisþjófnað, fjársvik, peningaþvott og að hafa logið að kjörsókn. 

Grillo bauð sig fram í maí á þessu ári og sóttist eftir þriðja þingsæti New York-ríkis, þ.e. sæti George Santos þar til í síðustu viku.  

Óeirðir brutust út 6. janúar 2021 þegar stuðningsmenn Trump brutu …
Óeirðir brutust út 6. janúar 2021 þegar stuðningsmenn Trump brutu sér leið inn í bygginguna. AFP

Sagðist ætla að ræna þinghúsið

Grillo er þó ekki barnanna bestur sjálfur en hann var sakfelldur á þriðjudaginn, m.a. fyrir að hindra opinbera málsmeðferð, fyrir þátttöku sína í óeirðunum og brjóta sér leið inn á lokað svæði. 

Var eitt sönnunargagnanna myndbandsviðtal við Grillo þar sem hann kvaðst vera í þinghúsið kominn til þess að ræna þar og rupla. 

„Þetta er fjandans húsið okkar,“ sagði Grillo. „Fjandinn hafi það við gerðum það, skilurðu það? Við stormuðum inn í þinghúsið,“ sagði Grillo í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert