Óeirðir brutust út á Capitol Hill í Washington í dag þar sem Bandaríkjaþing er til húsa þegar stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta brutu sér leið inn í bygginguna. Lögreglan beitti skotvopnum og táragasi á hópinn. AFP hefur eftir þingmönnum að um „valdarán“ sé að ræða.
Neðst í fréttinni má sjá beina fréttalýsingu mbl.is frá atburðunum vestra.
Sameiginlegur þingfundur fulltrúadeildarinnar og öldungadeildarinnar stendur yfir, en hlé hefur nú verið gert á fundahöldum.
Á myndum má sjá mótmælendur halda á skotvopnum inni í þinghúsinu. Þeir halda því fram að brögð hafi verið í tafli þegar Trump beið ósigur fyrir Joe Biden í forsetakosningunum sem fóru fram í nóvember sl.
Lögregla hafði girt þinghúsið af eftir að til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. Stuðningsmenn Trumps hafa mótmælt fyrirhugaðri staðfestingu Bandaríkjaþings á forsetakosningunum sem fram fóru í nóvember síðan snemma í dag.
Í beinni útsendingu ABC-fréttastöðvarinnar af óeirðunum kemur fram að lögreglumenn innan þinghússins séu mun færri en mótmælendur. Er nú unnið að því að koma fleiri lögregluþjónum á svæðið. Þá er fullyrt á ABC að nú sé unnið að rýmingu þinghússins. Varaforseti Bandaríkjanna Mike Pence hefur þegar verið fluttur af svæðinu.
Samkvæmt heimildum ABC í þinghúsinu hafa mótmælendur, sem eru nú staddir á þriðju hæð, gengið á milli skrifstofa þingmanna og kallað „hvar í fjandanum eru þau“.
„Þetta er ekki Úkraína, þetta er ekki Hvíta-Rússland, þetta er þinghús Bandaríkjanna,“ sagði fréttamaður ABC.
BNO News greinir frá því á Twitter að einn hafi verið skotinn.
CNN greinir frá því að kona sé alvarlega slösuð eftir að hafa orðið fyrir skoti.
Muriel Bowser, borgarstjóri í Washington D.C., hefur fyrirskipað útgöngubann í borginni eftir að mótmælendur brutu sér leið inn í þinghúsið. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur kallað til þjóðvarðlið vegna mótmælanna.
Blaðamaðurinn Matt Fuller segir á Twitter að mótmælendurnir hafi skotið inni í þingsal.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter að lögreglan „er raunverulega með ykkur í liði“ og hvatti mótmælendur til að vera friðsamir.