Myndskeið: „Ótrúleg sjón að horfa á þetta“

„Það var ótrúleg sjón að horfa á þetta. Svartur himinn og mikil viðbrögð líka,” segir Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson, verkfræðinemi í Gautaborg í Svíþjóð.

Hann býr í næsta nágrenni við vatnsskemmtigarðinn Liseberg þar sem mikill eldur braust út fyrr í dag. Meðfylgjandi myndskeið var þó ekki tekið af honum, heldur vini hans.  

Lestarstöðinni í hverfinu hefur verið lokað, auk þess sem tímarnir í skóla Ágústar Heiðars, Chalmers-tækniháskólanum, eru kenndir í fjarnámi í dag, enda loftgæðin á svæðinu afar slæm.

Reykurinn vegna eldsvoðans var afar mikill.
Reykurinn vegna eldsvoðans var afar mikill. AFP/Bjorn Larsson Rosvall

Íslenski námsmaðurinn passar sig einnig á því að hafa alla glugga í íbúð sinni lokaða.

Ágúst Heiðar kveðst ekki lengur sjá reykinn frá skemmtigarðinum og er útlit fyrir að slökkviliðinu hafi tekist að ná tökum á eldinum. 

Að sögn sænsku lögreglunnar fengu 12 manns aðhlynningu á slysadeild vegna minniháttar meiðsla, að því er AFP-fréttastofan greindi frá. 

Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson.
Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson. Ljósmynd/Aðsend

„Maður hefur varla séð svona áður og hefur maður þó séð þó nokkur eldgos. Maður man ekki eftir svona svörtum reyk í loftinu,” bætir hann við, spurður nánar út í upplifun sína af eldsvoðanum.

Skemmtigarðurinn átti að opna í vor en eldsvoðinn á væntanlega eftir að setja stórt strik í reikninginn hvað það varðar.

„Maður var orðinn svolítið spenntur fyrir því að vera með sundlaugagarð í bakgarðinum,” segir Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert