Netanjahú hafi margsinnis hafnað að útrýma Hamas

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP/Ronen Zvulun

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, er sagður hafa hafnað áætlunum um að útrýma forystu Hamas-hryðjuverkasamtakanna sex sinnum á síðustu 12 árum. 

Þetta kemur fram í aðsendri grein Ehud Barak, stjórnmálamanns og fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, sem fjölmiðillinn Foreign Affairs birti í vikunni.

Á annað þúsund Ísraela féllu í hryðjuverkum samtakanna þann 7. október.

Í greininni skýtur Barak föstum skötum á Netanjahú og segir sitjandi ríkisstjórn „sláandi vanhæfa“ í tengslum við hernað og stríðið á Gasaströndinni.

Eftir hryðjuverk Hamas svaraði Ísrael með nær linnulausum hefndarárásum þar sem um 30 þúsund manns hafa fallið, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas.

Ísra­elsk stjórn­völd hafa nú að mestu fall­ist á sex vikna langt vopna­hlé í átök­un­um.

Ehud Barak, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, gagnrýnir stijandi ríkisstjórn landsins harkalega, …
Ehud Barak, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, gagnrýnir stijandi ríkisstjórn landsins harkalega, ekki síst Netanjahú. AFP/Christof Stache

Skammsýn nálgun Netanjahús

Í greininni tekur Barak fram að hann efist ekki um að Netanjahú vilji að gíslunum verði sleppt en að þörf forsætisráðherrans fyrir að líta út eins og sterkur leiðtogi sem sé umkringdur veikburða hershöfðingjum og ráðherrum, hafi ekki jákvæð áhrif.

Lýsir hann Netanjahú sem stjórnsömum leiðtoga, með skammsýna nálgun, sem líti stórt á sig.

„Það sem Ísrael þarf er hin hófsama, metnaðarfulla og forsjáa ákvarðanataka Davids Ben-Gurions [fyrsta forsætisráðherra Ísraels],“ skrifar Barak.

Hafnað tillögum Shabak

Netanjahú og aðrir stjórnarliðar í Ísrael hafa oft lýst því yfir að meginmarkmið Ísraels í stríðinu á Gasa sé annars vegar að bjarga gíslunum úr klóm Hamas og hins vegar að útrýma hryðjuverkasamtökunum.

Barak bendir aftur á móti á Netanjahú hafi oft hafnað tillögum að áætlunum til þess að útrýma Hamas-samtökunum.

„Hann [Netanjahú] hefur sex sinnum á síðustu 12 árum hafnað áætlunum yfirmanna öryggisstofnunar Ísraels, sem nefnist Shabak, um að útrýma forystu Hamas.“

Barak bætir við að á meðan Ísrael sitji aðgerðalaust versni aðstæður gíslanna enn fremur, en þau hafa setið í haldi hryðjuverkamanna í nær fimm mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert