Málaliðar frá Asíu í þjónustu Rússlandshers

Ungir menn í Nepal kjósa frekar hærri laun á vígvellinum …
Ungir menn í Nepal kjósa frekar hærri laun á vígvellinum í Úkraínu en sára fátækt heima fyrir. AFP/Prakash Mathema

Ungir menn frá Suður-Asíu hafa gengið í þjónustu Rússlandshers eftir að hafa verið lofað góðum kjörum í hernum.

Mikið mannfall hefur orðið í þeirra röðum og ekki hefur verið staðið við skuldbindingar og launagreiðslur og erfitt getur reynst að komast út úr herþjónustunni.

Hermenn frá mörgum ríkjum í liði Rússa

Vladimír Pútín studdi í mars árið 2022 við áætlun um að leyfa mætti erlendum sjálfboðaliðum að berjast við hlið Rússa í innrásarstríði þeirra í Úkraínu. Margir spáðu því að Rússar myndu einkum leita til Sýrlands eftir hermönnum. Málaliði frá Nepal hefur greint Al Jazeera frá því að í röðum erlendra hermanna séu líka hermenn frá Afganistan og Tadsíkistan.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Nepals gerði ráð fyrir því að allt að 200 Nepalar berðust við hlið Rússa í lok árs 2023. Aðrir greinendur telja að þúsundir Nepala hafi gengið til liðs við Rússa. Tala indverskra hermanna er talin vera um eitt hundrað.

Sömuleiðis eru heimildir fyrir því að fjölmargir hermenn frá Sri Lanka hafi gengið til liðs við rússneska herinn.

Flýja sára fátækt heima fyrir

Fátækt er líklegasti hvati flestra til að ganga til liðs við Rússa. Bimal Bhandari, 32 ára málaliði frá Nepal segir: „Fjölskylda mín stendur svo höllum fæti að ég taldi að þetta gæti bætt hag hennar.“

Það sama gildir um hermenn frá Sri Lanka, þeir gangi til liðs við Rússa ekki vegna þess að þeir trúi sérstaklega á málstað þeirra heldur frekar vegna þess að þar gefst tækifæri til að þéna smá aur, enda efnahagsástandið bágt heima fyrir.

Í Sri Lanka hefur verið mikill efnahagslegur samdráttur allt frá árinu 2022 og þeirra pólitísku sviptinga sem þá voru í landinu. Hungursneyð geisaði í landinu á síðasta ári. Ríkið safnar erlendum skuldum og verðbólga hefur leitt til eldneytis-, lyfja- og matarskorts.

Skárra að deyja á vígvellinum en af skorti heima

Fyrrverandi hermaður frá Sri Lanka, sem óskaði eftir nafnleynd, sagðist síður óttast að deyja á vígvellinum í Úkraínu en af skorti heima fyrir. Laun heima fyrir eru rúmar níu þúsund krónur, að frádregnum skatti.

Nepalar geta vænst þess að þéna tæpar 140 þúsund krónur á ári heima fyrir en í þjónustu rússneska hersins gætu þeir fengið rúma hálfa milljón á mánuði. Þótt ekki allir hermenn fái greiddar þær upphæðir sem þeim var lofað, eru upphæðirnar eftir sem áður mun hærri en þeir gætu vænst heima fyrir.

Leitað að málaliðum á samfélagsmiðlum

Flestir málaliðar frá Suður-Asíu berjast með Rússum, þó dæmi séu um hermenn frá Sri Lanka sem barist hafa í liði Úkraínu. Náð er í liðsaflann með því að herja á síður þar sem ungir menn leita að atvinnutækifærum í Evrópu. Rússar hafa auglýst á TikTok um þá atvinnumöguleika sem þeir hafa í boði.

Nepalskir hermenn hafa sagst fengið skilaboð í gegnum TikTok, og var það þá ferðafrömuður í Nepal sem tók að sér að skipuleggja ferðir þeirra. Ferðaskrifstofan tók svo gríðarmikla þóknun fyrir það að skipuleggja Rússlandsferðina.

Milliliðir maka krókinn

Málaliði frá Nepal sagðist hafa verið rukkaður um rúm 1.200 þúsund fyrir að ráða sig í rússneska herþjónustu en þess í stað var honum lofaðar rúmlega 400 þúsund króna mánaðarlaun, auk annarra fríðinda svo sem rússneskan ríkisborgararétt fyrir sig og fjölskyldu sína.

Fæstir málaliðanna fengu mikla þjálfun áður en þeim var dembt út í átök. Þeim hafði verið lofuð þriggja mánaða þjálfun, en þess í stað voru þeir tæplega mánuð við æfingar í Rostov-héraði í suðvesturhluta Rússlands, nálægt Úkraínu.

Takmörkuð þjálfun hefur fengið hermenn frá Nepal til að ætla að þeim væri ætlað að vera varasveitir. Það var þó ekki raunin og þeim var ýtt í fremstu víglínu.

Rússar gæta erlendra hermanna sinna vel og hafa fangað þá sem reynt hafa að sleppa.

Reyna að ná hermönnum aftur heim

Lögregluyfirvöld í Nepal hafa nú tekið fólk til fanga þar í landi sem gefið er að sök að stunda mansal til Rússlands.

Utanríkisráðuneytið í Nepal er í þéttu bandi við stjórnvöld í Rússlandi, bæði til þess að heimta landsmenn sína aftur heim og eins til að koma jarðneskum leifum fallinna hermanna til Nepal. Þá hafa þeir þrýst á Rússa að bæta fjölskyldum í Nepal þann skaða sem verður við fráfall nepalskra ríkisborgara á vígvellinum.

Ekki er gert ráð fyrir að straumur málaliða frá Asíu minnki þegar efnahagurinn er svo bágur heima fyrir að fyrirheit um ríkuleg laun á vígvellinum í Úkraínu verði áfram lokkandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka