Skipar Wagner-liðum að sverja hollustueið

Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi öryggisráðs Rússlands í gær.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi öryggisráðs Rússlands í gær. AFP/Mikhaíl Klímentjev

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur undirritað tilskipun þess efnis að allir málaliðar Wagner-hópsins, auk annarra rússneskra einkaherdeilda, verði að sverja hollustueið við rússneska ríkið.

Tilskipunin tekur til allra sem taka þátt í hernaðaraðgerðum í Úkraínu og aðstoða herinn, að því er BBC greinir frá.

Pútín undirritaði tilskipunina í gær, tveimur dögum eftir að flugvél fórst nærri Moskvu, en um borð var Jevgení Prigósjín, leiðtogi Wagner-hópsins, ásamt fleiri málaliðum. Tíu voru um borð í vélinni og komst enginn lífs af.

Vill hafa meiri stjórn á Wagner

Að mati sérfræðinga er tilskipun Pútíns hluti af tilraunum hans til að endurheimta vald sitt í kjölfar uppreisnar Wagner-málaliðahópsins í júní. Tilskipunin hefur þegar tekið gildi.

„Pútín vill hafa meiri stjórn á Wagner til að tryggja að hann muni ekki standa frammi fyrir annarri krísu í framtíðinni,“ segir Natia Seskuria, sérfræðingur hjá bresku hugveitunni RUSI (Royal United Services Institute) við BBC.

Í tilskipuninni felst eið um að fara nákvæmlega eftir skipunum herforingja.

Getur skapað vandræði fyrir Pútín

Seskuria telur að þó svo að tilskipunin kunni að hafa áhrif til skamms tíma, séu engu að síður dyggir stuðningsmenn Prigósjín sem muni ekki sverja eiðinn.

„Þetta getur hugsanlega skapað vandræði fyrir Pútín til lengri tíma litið.“

Sérstök eining innan Wagner-hópsins, nefnd Rúsitsj, tilkynnti í dag að hernaðaraðgerðir hennar í Úkraínu yrðu stöðvaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert