Skutu niður fjölda dróna og eldflauga

Skjáskot úr myndbandi sem sýnir sprengingar í lofti yfir Hebron …
Skjáskot úr myndbandi sem sýnir sprengingar í lofti yfir Hebron á Vesturbakkanum. Skjáskot/AFP

Flugher Jórdaníu hefur skotið niður tugi dróna frá Íran sem fóru inn í lofthelgi landsins, en Jórdanía hafði ásamt Írak, Líbanon og Ísrael lokað lofthelgi sinni fyrr í nótt. Einnig hafa borist fréttir af því að Bandaríkjaher hafi skotið niður dróna sem beint var að Ísrael, sem og ísraelski herinn.

Fréttir um þessa atburðarás eru á þessari stundu að berast.

Reuters fréttaveitan greinir frá því að íbúar í norðurhluta Ísrael, við landamærin að Sýrlandi, hafi heyrt mikla hvelli frá sprengingum í lofti.

Eins og sjá má á korti af Miðausturlöndum þurfa drónar …
Eins og sjá má á korti af Miðausturlöndum þurfa drónar eða eldflaugar frá Ísrael að fara um yfir landsvæði Írak og síðar Sýrlands eða Jórdaníu til að ná til Ísrael. Kort/AFP

Þá berast fréttir frá Jórdaníu um að nokkur fjöldi dróna hafi verið skotinn niður um 60 km suður af höfuðborginni Amman.

Samkvæmt yfirlýsingu Bandaríkjahers grönduðu Bandaríkjamenn nokkrum drónum, en ekki kemur fram hvar það hafi verið. Tekið er fram í tilkynningunni að drónarnir hafi verið frá Íran og beint að Ísrael.

Þá segir í nýjustu tilkynningu Ísraelshers að meirihluti drónanna sem Íran hafði sent í átt að Ísrael hafi verið skotinn niður.

Uppfært: Talsmaður Ísraelhers, Avichay Adraee, segir að ísraelskar herflugvélar hafi skotið niður meira en tíu eldflaugar fyrir utan landamæri Ísrael og meira en tug dróna. Þá sagði hann að samtals hefði Íran skotið á loft meira en 200 drónum, eldflaugum eða öðrum gerðum árasarvopna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert