„Gífurlega þungar áhyggjur af stigmögnun“

Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar.
Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fyrsta sem kemur upp í hugann eru gífurlega þungar áhyggjur af stigmögnun. Ég sé að íslensk stjórnvöld deila þessum áhyggjum og raunar stjórnvöld úti um allan heim. Ég tek undir bæði skilaboð og áhyggjur íslenskra stjórnvalda,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, um viðbrögð við árás Írans á Ísrael um helgina.

Diljá kveðst hafa óskað eftir greiningu frá utanríkisráðuneytinu á stöðu mála. Utanríkismálanefnd mun funda í dag og Diljá væntir þess að staðan verði rædd á þeim fundi.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra fordæmdu bæði árásina um helgina.

Hvatti forsætisráðherra til stillingar í átökunum í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum sínum, en Þórdís benti á í viðtali við mbl.is í gær að bein árás á Ísrael af hálfu annars ríkis hefði ekki átt sér stað í 50 ár. Sagði Þórdís þar að árás Ísraels á ræðismannsskrifstofu Írans í Damaskus hefði verið ólögleg en að viðbragð Írans hefði alls ekki verið eðlilegt.

Höfuð snáksins í Teheran

„Það er mikið áhyggjuefni hversu lengi írönsk stjórnvöld hafa grafið undan stöðugleikanum, ekki bara á þessu svæði heldur víða um heim,“ segir Diljá Mist. Segir hún að íranska stjórnarandstaðan hafi í samtölum við íslenska stjórnmálamenn bent á að „höfuð snáksins“ sé í Teheran, og vísar þar til stuðnings klerkastjórnarinnar við hryðjuverkasamtök og leppa, t.d. í Líbanon og Jemen. „Til þess að slökkva ófriðarbálið þarf að eiga sér stað algjör kúvending hjá stjórnvöldum í Íran.“

– Telurðu að Ísrael muni svara fyrir árás Írans?

„Maður hefur auðvitað áhyggjur af því, en það er ekki annað hægt en að vonast til þess að stríðandi aðilar sýni stillingu.“

Hægt er að nálagst umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert