LÖGLEGT? SIÐLEGT?

LÖGLEGT? SIÐLEGT? Ef viðskipti þau sem Gunnlaugur M. Sigmundsson beitti sér fyrir á milli Kögunar og Þróunarfélagsins fyrir réttum fimm árum hefðu átt sér stað í dag, hefði þeim umsvifalaust verið rift af stjórn Þróunarfélagsins. Niðurstaðan í grein Agnesar Bragadóttur er að ef það hefði gerst í dag, að Gunnlaugur notfærði sér þær upplýsingar sem hann bjó yfir sem framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins, til eigin hagsbóta, hefði slíkt að öllum líkindum kostað hann þingsætið.

Í KJÖLFAR þess að þrír bankastjórar Landsbanka Íslands sögðu af sér og í kjölfar greinaskrifa Sverris Hermannssonar, hefur kastljósið beinst að ýmsum, sem Sverrir hefur tekið til bæna í greinum sínum. Einn þeirra er Gunnlaugur M. Sigmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, fyrrverandi framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands og núverandi framkvæmdastjóri Kögunar hf., sem samkvæmt samningi við utanríkisráðuneytið annast rekstur og viðhald hugbúnaðar ratsjárkerfis IADS fyrir ratsjárstöðvar varnarliðsins á Íslandi.

Gunnlaugur er nú ásamt eiginkonu sinni 27% eigandi í Kögun hf. en Sverrir lét í einni greina sinna að því liggja að ekki hafi verið allt með felldu hvernig hann eignaðist þennan hlut í félaginu. Hér á eftir verður saga þessa fyrirtækis rifjuð upp, hverjir stofnuðu félagið, hver var ástæða stofnunarinnar, hverjir lögðu til fjármagn, hver tilgangur félagsins var og hvernig eignasamsetning félagsins breyttist svo mjög frá því sem upphaflega var að stefnt. Nú eiga tveir aðilar, Gunnlaugur og kona hans og Eftirlaunasjóður starfsmanna Kögunar, tæp 60% í félaginu, en eins og fram kemur síðar í greininni, var stefnt að mjög dreifðu eignarhaldi við stofnun félagsins, og heyrði undanþágu til, ef hluthafi fékk að kaupa meira en 0,7% hlut og utanríkisráðuneytið skilyrti það í samningnum um einkarétt til viðhalds til Kögunar, að þegar í stað yrði send tilkynning til ráðuneytisins ef einhver einn hluthafi eignaðist 5% hlut eða meira.


Átök í stjórn Þróunarfélagsins

Til þess að setja hluti í samhengi í þessu máli er svolítil upprifjun nauðsynleg:

Það var Steingrímur Hermannsson, þá forsætisráðherra, sem gerði Gunnlaug M. Sigmundsson að framkvæmdastjóra í Þróunarfélagi Íslands við stofnun þess árið 1986, við misjafnar undirtektir stjórnarmanna félagsins, t.d. Davíðs Scheving Thorsteinssonar og Harðar Sigurgestssonar, sem sögðu sig úr stjórninni við þann gjörning forsætisráðherra. Aðrir í stjórn félagsins á þessum tíma voru Jón Ingvarsson, Guðmundur G. Þórarinsson og Dagbjartur Einarsson, en þeir þrír greiddu Gunnlaugi atkvæði sitt á stjórnarfundi. Davíð Scheving Thorsteinsson og Hörður Sigurgestsson, höfðu áður ákveðið að styðja Ingjald Hannibalsson.

Félagið var eins og kunnugt er sett á laggirnar af stjórnvöldum, ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Félagið hóf starfsemi með um 600 milljóna króna hlutafé og stóru láni með ríkisábyrgð. Tilgangur félagsins var að efla nýsköpun á sem flestum sviðum atvinnulífsins og leggja fram áhættufé í ný fyrirtæki.

Fljótlega eftir að Gunnlaugur var orðinn framkvæmdastjóri félagsins réð hann eiginkonu sína, Sigríði G. Sigurbjörnsdóttur, til Þróunarfélagsins og sá hún um allt bókhald félagsins.


Átti í upphafi 71,04%

29. desember 1988 var stofnað félagið Kögun hf., sérstakt hugbúnaðarfélag til þess að smíða hugbúnað fyrir ratsjárkerfi varnarliðsins á Íslandi, svonefnt IADS-loftvarnarkerfi, þar sem Hughes Aircraft í Kaliforníu var aðalverktaki. Í stofnun þessa hlutafélags áttu þátt Þróunarfélag Íslands sem átti í upphafi 71,04% í félaginu og lagði fram 14,2 milljónir króna af 20 milljóna króna hlutafé og Félag íslenskra iðnrekenda, sem átti 3% í félaginu, með því að leggja fram 600 þúsund krónur í hlutafé og auk þeirra voru hluthafar 37 íslensk hugbúnaðarfyrirtæki, þar sem hvert um sig var skráð fyrir 0,7% hlut eða 140 þúsund krónum.

Á vegum félagsins fóru um tuttugu hámenntaðir ungir menn til Bandaríkjanna til þess að afla sér frekari menntunar og þjálfunar, til þess að geta annast rekstur og viðhald hugbúnaðar hins nýja ratsjárkerfis varnarliðsins. Á árunum 1990 til 1995 fór þess vegna hluti af starfsemi félagsins fram í Bandaríkjunum.

Það voru 37 hugbúnaðarfyrirtæki sem skráðu sig fyrir hlutafé í Kögun hf. við undirbúning að stofnun þess, en misvel tókst með innheimtu hlutafjárloforðanna.

Þróunarfélag Íslands leitaði strax eftir því að selja ákveðið magn af sínum bréfum og seldi 0,7% hluti á sama gengi og stofnendur höfðu keypt á fram á fyrri hluta árs 1989. Með því að skipta hlutunum upp í svo smáar einingar var leitast við að tryggja dreifða eignaraðild samanber samning utanríkisráðuneytisins og Kögunar, þar sem gert var ráð fyrir (5. grein) að varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins yrði tafarlaust tilkynnt ef einhver eignaðist meira en 5% hlut í félaginu.


Keypti öll bréf sem buðust

Án vitneskju stjórnar Þróunarfélags Íslands, samkvæmt því sem heimildir herma, keypti Gunnlaugur M. Sigmundsson jafnóðum þá hluti sem voru falir, þ.e.a.s. aðra hluti en hluti Þróunarfélagsins. Það hefur fengist staðfest hjá hugbúnaðarfyrirtækjum sem voru með í stofnun Kögunar, að Gunnlaugur hringdi í forsvarsmenn þeirra og falaðist eftir hlut þeirra í Kögun sem þeir höfðu skráð sig fyrir í upphafi og höfðu þegar greitt. Þessa tegund viðskipta hóf Gunnlaugur mjög snemma og hann hafði náð því að verða nálægt 12% eigandi að Kögun hf. fyrir árslok 1992. Samkvæmt heimildum blaðsins mun utanríkisráðuneytinu ekki hafa verið tilkynnt um þetta.

Í árslok árið 1992, ákveður svo ríkissjóður að selja hluta sinn í Þróunarfélaginu til lífeyrissjóðanna, eða 30%, og í byrjun árs 1993 voru fulltrúar nýrra eigenda orðnir virkir í stjórn félagsins.

Við þau tímamót fer ný stjórn Þróunarfélagsins að líta á reikninga félagsins og athuga hverjir helstu veikleikar þess séu. Aðalveikleikinn virtist þá vera sá, að félagið skuldaði töluvert meira í erlendri mynt en það átti í skuldabréfum. Því var það metið svo, að þarna væri um óeðlilega gengisáhættu að ræða sem ákveðið var að bregðast við með breyttri eignasamsetningu. Til tals kom sala á hlut félagsins í ákveðnum félögum, eins og Kögun hf. og Marel hf. á a.m.k. tveimur stjórnarfundum félagsins í ársbyrjun 1993.

Var m.a. rætt um hvort von gæti verið á frekari virðisauka á hlutnum í Kögun vegna hækkunar á gengi og taldi framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins, Gunnlaugur M. Sigmundsson að slíkt væri afar ólíklegt, hækkun bréfanna væri þegar komin fram. Því var honum falið að leita eftir kaupendum að 58% hlut Þróunarfélagsins á því sem nefnt var viðunandi verð, gengið var fjórfalt nafnverð. Það var Gunnlaugur M. Sigmundsson sem kynnti stjórn Þróunarfélagsins verðhugmyndir upp á fjórfalt gengi hlutabréfanna, samkvæmt öruggum heimildum. Síðar kom í ljós að dulin verðmæti í fyrirtækinu gerðu það miklu verðmætara.


Framkvæmdastjóri á báðum stöðum

Þegar hér var komið sögu var eiginkona Gunnlaugs hætt störfum sem bókari hjá Þróunarfélaginu og hafði þegið stöðu af eiginmanni sínum sem skrifstofustjóri hjá Kögun hf. Hann var þá orðinn framkvæmdastjóri hjá Kögun hf. jafnframt því að gegna áfram starfi framkvæmdastjóra hjá Þróunarfélaginu. Að sjálfsögðu var það einungis í ljósi þess að Þróunarfélag Íslands var 58% eigandi að Kögun hf. sem hann var settur yfir félagið.

Eftir umræðu um málið á einum tveimur stjórnarfundum í ársbyrjun 1993 var ákveðið að fela framkvæmdastjóra félagsins, Gunnlaugi M. Sigmundssyni, að kanna með sölu á hlutabréfum félagsins í umræddum félögum.

Þegar stjórnarmaðurinn og framkvæmdastjórinn Gunnlaugur gerði tillögu í stjórn Kögunar um að félagið leysti til sín 58% hlut Þróunarfélagsins í Kögun, skýrði hann málið á þann hátt fyrir stjórninni, að með slíkum gjörningi, hefði félagið sjálft yfir því að segja hverjir eignuðust hlut Þróunarfélagsins. "Mikil áhersla var lögð á það á þessum tíma, að hlutabréfin færu ekki í hendurnar á Pétri eða Páli," sagði einn viðmælandi. Hann bætir því við að stjórnarmenn á þeim tíma hafi ekki haft neina vitneskju um að félagið væri margfalt meira virði en það var á pappírnum. Gunnlaugur lagði ofuráherslu á að Kögun gæti keypt bréf Þróunarfélagsins við þessu verði, ekki öðru, og stjórn Kögunar gekk að því.

Kögun hafði skömmu eftir stofnun, eða 22. maí 1989 fengið einkarétt utanríkisráðherra, sem þá var Jón Baldvin Hannibalsson, til þess að annast rekstur og viðhald áðurnefnds hugbúnaðar fyrir ratsjárstöðvar Bandaríkjamanna á Íslandi. Þessi einkaréttur jafngilti auðvitað ávísun á mikla fjármuni, nýja tegund af "hermangsgróða" og því var einkaréttur utanríkisráðherra skilyrt á þann veg, að eignarhald í fyrirtækinu yrði dreift, samanber 5. grein samnings utanríkisráðuneytisins og Kögunar, sem er svohljóðandi:

"Kögun hf. skuldbindur sig til að afhenda varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins árlega skrá yfir eigendur hlutafjár í félaginu og hlutafjáreign þeirra. Jafnframt mun félagið tilkynna varnarmálaskrifstofunni tafarlaust ef einhver einn hluthafa hefur eignast meira en 5% heildarhlutafjár."

Fyrrum stjórnarmenn Kögunar og Þróunarfélags Íslands hafa sagt, að þeirra skilningur hafi verið sá, á þessum tíma, að utanríkisráðuneytið krefðist þess, að í fyllingu tímans yrði Kögun gerð að almenningshlutafélagi. Gunnlaugur staðfestir þann skilning í samtali hér á eftir. Þau verðmæti sem fólust í þessum samningi komu auðvitað ekki fram í reikningum félagsins, þó að þau hefði átt að hafa full áhrif á verð hlutabréfa þess.

Samkvæmt hlutafélagalögum þá mátti félag ekki eiga meira en 10% í sjálfu sér, nema í skamman tíma. Því þurfti stjórn Kögunar að gera sérstakar bókhaldsaðgerðir, eftir að hafa leyst til sín 58% hlut Þróunarfélagsins, til þess að tryggja áframhaldandi yfirráð yfir öllum bréfunum, fyrst ekki var valinn sá kostur að selja öðrum bréfin. Kögun keypti eigin hlutabréf að nafnverði 4,1 milljón króna á genginu 4, eða á 16,4 milljónir króna og Eftirlaunasjóður starfsmanna Kögunar keypti afganginn. Stjórnin hugðist þegar þetta var selja 1,6 milljónir króna að nafnvirði á almennum markaði (sem aldrei var gert) en lækka hlutafé um 2,5 milljónir króna að nafnvirði.

Við lækkun hlutafjárins dreifðust hin duldu verðmæti tilheyrandi lækkunarfjárhæðinni á aðra hluthafa.


Bréf Gunnlaugs til þingheims

Gunnlaugur M. Sigmundsson lýsir bókhaldsaðgerðum stjórnar Kögunar sjálfur í bréfi til allra þingmanna, sem hann sendi þeim í liðinni viku á eftirfarandi hátt: "Sannleikurinn í þessu máli er sá að ákveðið var að selja hlutabréf Þróunarfélagsins í Kögun, Marel og fleiri fyrirtækjum til að fjármagna ákveðna aðgerð. Ekkert umræddra hlutabréfa seldist innan þess frests sem menn höfðu ætlað og bauð ég þá stjórnum bæði Kögunar og Marels að félögin leystu sjálf til sín hlutabréfin og gæfu starfsmönnum síðan kost á að eignast þau að hluta eða öllu leiti. [Stafsetningin er Gunnlaugs. Innsk. blaðam.] Forstjóra Marels þótti málið of stórt til að taka þá áhættu að kaupa en stjórn Kögunar lét fyrirtækið sjálft kaupa umrædd hlutabréf, færði hluta niður yfir eigið fé en hjálpaði starfsmönnum að eignast hinn hlutann [svo]. Síðan eiga starfsmenn í sameiningu yfir 30% af félaginu en það skal undirstrikað að hvorki ég né neinn af mínu fólki var með í umræddum kaupum og ekkert umræddra hlutabréfa hefur síðan skipt um hendur; starfsmenn eiga þetta enn [svo]. Um þetta er í sjálfu sér ekki meira að segja nema e.t.v. það, að hópur starfsmanna keypti einnig hlutabréf sem Félag Íslenskra Iðnrekenda [svo] átti í Kögun sen FÍI var næst stæsti [svo] hluthafinn við stofnun. Bæði ég og kona mín vorum aðilar að þeim kaupum og milligekst þau." [Hvað þýðir þessi setning? Innsk. blaðam.]

Það sem stjórn Kögunar gerði þarna í raun og veru, var að færa niður hlutafé félagsins og auka hlut annarra sem því nam. Áður hafði félagið selt Eftirlaunasjóði starfsmanna Kögunar hlut og eftir niðurfærsluna var sá hlutur orðinn 22,7%. Eftirlaunasjóðurinn hefur síðan keypt aukinn hlut og á nú yfir 30%, samkvæmt bréfi Gunnlaugs, en átti 28% samkvæmt síðasta ársreikningi Kögunar.

Til þess að skilja í raun og veru hvað gerðist er nauðsynlegt að fá skýringu löggilts endurskoðanda. Hann skýrir málið með eftirfarandi dæmi: Gefum okkur að hlutafé í fyrirtæki sé 10 milljónir króna. Svo kaupir hlutafélagið sjálft 50% af hlutafénu af einum stórum hluthafa, þ.e.a.s. 5 milljónir króna og færir hlutaféð um leið niður um þá upphæð. Þá er hlutaféð ekki lengur 10 milljónir króna, heldur 5 milljónir króna. Sá sem átti eina milljón króna í hlutafé af upphaflegu 10 milljónunum, eða 10%, á eftir niðurfærsluna eina milljón króna af 5 milljónum króna, eða 20%.

Þetta myndi í sjálfu sér engu máli skipta um verðmæti hlutafjár þeirra sem eftir sætu nema um hafi verið að ræða dulin óbókuð verðmæti í fyrirtækinu sem ekki hefðu haft eðlileg áhrif á kaupverðið þegar félagið sjálft keypti. Þannig stóð á í tilviki Kögunar og því fólst í aðgerðinni stórkostleg aukning á verðmæti hlutabréfa framkvæmdastjórans.


Hlutur hjónanna 129,6 milljóna króna virði

Við þessa ráðstöfun jókst eignarhluti Gunnlaugs M. Sigmundssonar og konu hans, Sigríðar G. Sigurbjörnsdóttur í 27%. Samkvæmt Íslensku atvinnulífi sem Talnakönnun gefur út, átti Sigríður 14% hlut í Kögun þann 1. mars sl. og Gunnlaugur átti 13%. Eins og fram kemur á meðfylgjandi töflu er gengi hlutabréfa í Kögun á Opna tilboðsmarkaðinum nú 56-falt nafnverð. Gengið var 50-falt nafnverð allt árið 1997. Miðað við gengið 56 eiga þau hjónin því hlut í Kögun í dag að andvirði 129,6 milljóna króna. Niðurfærða hlutaféða hafði hins vegar aðeins verið keypt af Þróunarfélaginu á fjórföldu nafnverði.

Samkvæmt 42. grein laga um hlutafélög númer 32 frá 1978, þar sem fjallað er um lækkun hlutafjár segir að lækka megi í þrennu skyni; "Til jöfnunar taps, sem ekki verður jafnað á annan hátt." Það á ekki við í þessu tilviki. "Til greiðslu til hluthafa." Það á ekki heldur við í þessu tilviki. Og "Til afskriftar á greiðsluskyldu hluthafa og til greiðslu til að leggja í sérstakan sjóð sem aðeins má nota samkvæmt ákvörðun hluthafafundar." Líkast til var niðurfærslan studd því lagaákvæði að verið væri að afskrifa greiðsluskyldu hluthafa.

Þegar kaup Kögunar á hlut Þróunarfélagsins voru orðin staðreynd í apríllok 1993 greindi Gunnlaugur Þorgeiri Eyjólfssyni stjórnarformanni Þróunarfélagsins frá sölunni. Gunnlaugur hafði selt Kögun 58% hlut Þróunarfélagsins án þess að hafa stjórnarheimild fyrir sölunni. Honum hafði einungis verið falið að kanna möguleika á sölu. Við þessi tíðindi verður algjör trúnaðarbrestur á milli framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Þróunarfélagsins og var Gunnlaugi gert að segja starfi sínu lausu og hætta þegar í stað, ella yrði hann rekinn.


Vafasamir viðskiptahættir

Viðmælendur eru sammála um að viðskiptahættir Gunnlaugs í þessu tiltekna máli hafi að minnsta kosti verið ósiðlegir og flestir telja að um óeðlilega misbeitingu og misnotkun upplýsinga hafi verið að ræða. Rökstuðningur þeirra fyrir því er sá, að þegar Gunnlaugur starfaði sem framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins, þá vissi hann sem slíkur allt um stöðu Kögunar, því hann var settur inn sem framkvæmdastjóri Kögunar af Þróunarfélagi Íslands vegna þess hversu stóran eignarhlut Þróunarfélagið átti í Kögun. Hann vissi m.a. að fyrirtækið var miklu meira virði heldur en fram kom á pappírunum. Þess vegna er hann að kaupa hluti í Kögun, þegar þeir bjóðast og leggja fram kauptilboð við eigendur hugbúnaðarfyrirtækja og er þannig að nýta sér upplýsingar sem hann býr yfir sem framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins og Kögunar sjálfum sér til hagsbóta. Það vafasama við gjörning Gunnlaugs var, að hann nýtti sér upplýsingar, sem hann bjó yfir sem starfsmaður Þróunarfélagsins, sjálfum sér til hagsbóta ­ upplýsingar sem hann hefði aldrei átt aðgang að, nema sem framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins og Kögunar.

78. grein þágildandi hlutafélagalaga númer 32 frá 1978 er svohljóðandi: "Hluthafafundur má ekki taka ákvörðun sem bersýnilega er fallin til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins." Við blasir að kaup Kögunar á eigin hlutabréfum á undirverði og lækkun hlutafjár í kjölfarið aflaði ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins.

51. grein sömu laga er svohljóðandi: "Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu er þeir gerast stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar, gefa stjórninni skýrslu um hlutabréfaeign sína í félaginu og félögum innan sömu félagasamstæðu. Þá skulu þeir síðar gefa skýrslu um kaup þeirra og sölu á slíkum hlutabréfum." Það má spyrja hvort Kögun hafi ekki talist samstæða við Þróunarfélag Íslands þegar félagið átti orðið 58% í Kögun. Gaf Gunnlaugur stjórn Þróunarfélagsins slíka skýrslu?

Raunar er óhætt að taka dýpra í árinni, en lagaákvæðið um samstæðu kveður á um, því færa má að því lagaleg rök að Kögun var orðin dótturfélag Þróunarfélagsins við það að eignarhluti Þróunarfélagsins í Kögun var 58%. Samkvæmt sömu lögum frá 1978 segir í 52. grein: "Nú er hlutafé hlutafélags í öðru hlutafélagi orðið svo mikið að það fer með meirihluta atkvæða í félaginu og telst þá fyrrnefnda félagið, móðurfélagið, en hið síðarnefnda, dótturfélag."

Í 52. grein segir einnig: "Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstöfunar sem er óvenjuleg eða mikilsháttar."

Gunnlaugur heldur því fram að þessi ráðstöfun hafi hvorki verið óvenjuleg eða mikilsháttar, en að sönnu hlýtur það að orka tvímælis að halda því fram, að ráðstöfun sem hann einn og sér ákvað fyrir fimm árum þýddi að Þróunarfélagið fékk tuttugu milljónir króna í sinn hlut fyrir eignarhlut sem í dag er 280 milljóna króna virði!

Til fróðleiks skal þess getið, að ef Þróunarfélag Íslands hefði ákveðið að eiga allan upphaflegan hlut sinn áfram í Kögun, þ.e. 71,04%, fram til dagsins í dag, fengist 341 milljón króna fyrir þann hlut nú. Dágóð ávöxtun það, í stað tuttugu milljónanna sem Þróunarfélagið fékk í sinn hlut fyrir réttum fimm árum.


Brot á 56. grein laganna?

Þá er ekki úr vegi í þessu sambandi að vitna í 56. grein sömu laga, en þar segir: "Stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mega ekki taka þátt í meðferð máls, um samningsgerð milli félagsins og þeirra, um málshöfðun gegn þeim eða um samningsgerð milli félagsins og þriðja manns, eða málshöfðun gegn þriðja manni, ef þeir hafa þar verulegra hagsmuna að gæta, sem kunna að fara á bága við hagsmuni félagsins. Skylt er stjórnarmanni og framkvæmdastjóra að upplýsa um slík atvik." Ekki verður annað séð en þátttaka Gunnlaugs í þessum viðskiptum hafi verið brot á 56. grein laganna.

Tilvitnunum í lagabókstaf skal lokið með því að vísa í 60. grein sömu hlutafélagalaga frá 1978, en þar segir: "Félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimildir til þess að koma fram fyrir hönd félagsins, mega ekki gera neinar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins." Hvaða hluthöfum öfluðu þessar ráðstafanir ótilhlýðilegra hagsmuna? Er hægt að álykta á annan veg en þann að kaup Kögunar á eigin bréfum og niðurfærslan á þeim hafi aflað öðrum hluthöfum, sem til þess tíma höfðu verið í minnihluta, ótilhlýðilegra hagsmuna?

Það liggur í augum uppi, að hlutabréfamarkaðurinn í dag er ekki sá sami hér á landi og hann var um og upp úr 1990. Hann hefur þróast mjög mikið á undanförnum árum. Þau viðskipti sem Gunnlaugur beitti sér fyrir í ársbyrjun 1993, þegar hann seldi 58% hlut Þróunarfélagsins í Kögun á genginu fjórir, hefðu aldrei verið látin viðgangast í dag, í stjórn Þróunarfélagsins. Stjórnarmenn hafa sagt, að stjórnin myndi umsvifalaust rifta slíkum kaupum. Fyrrum stjórnarmenn hafa sagt, að ugglaust hafi stjórn Þróunarfélagsins ekki sýnt næga festu í apríllok 1993, þegar látið var nægja, að gera Gunnlaugi M. Sigmundssyni að hætta störfum hjá Þróunarfélaginu. Ætla má að þær kröfur sem gerðar eru til viðskiptahátta og siðferðis í dag, geri það að verkum, að þingmaður sem staðinn væri að ofangreindum viðskiptaháttum, vermdi þingsæti sitt ekki lengi, eftir það.

Innlent »

Einn með allar tölur réttar í jókernum

Í gær, 22:58 Eng­inn hlaut fyrsta vinn­ing í Eurojackpot í kvöld en rúmir 10 milljarðar króna voru í pott­in­um að þessu sinni. Einn Íslendingur hrósaði þá happi í jókernum og var með fimm jóker­töl­ur rétt­ar í réttri röð og fær hann tvær milljónir króna. Meira »

8 mánuðir fyrir kannabisræktun

Í gær, 21:25 Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haft vörslum sínum 632 kannabisplöntur í sölu- og dreifingarskyni. Plönturnar höfðu mennirnir ræktað um nokkurt skeið, en lögregla lagði hald á þær við húsleit. Meira »

Hefja athugun á Tekjur.is

Í gær, 21:01 Persónuvernd hefur hafið athugun á birtingu Viskubrunns ehf. á skattskrárupplýsingum fyrir árið 2016 á vefsíðunni Tekjur.is, en stofnunni hefur borist fjöldi erinda frá einstaklingum sem telja brotið gegn persónuverndarlöggjöf með birtingunni. Meira »

Glæpasögurnar þóttu ekki bókmenntir

Í gær, 20:50 Nú ber svo við að fyrir þessi jól mun Arnaldur Indriðason rjúfa 500 þúsund eintaka múrinn í sölu hér á landi. Af því tilefni mun útgefandi hans lauma gullmiða í 500 þúsundasta einstakið. Þá hafa bækur hans selst í 14 milljónum eintaka víða um heim. Meira »

Verslunin verður að vera upplifun

Í gær, 20:30 „Það þarf að vera eitthvað skemmtilegt um að vera í búðinni, uppákomur, spilakvöld, fyrirlestrar. Það þarf að vera upplifun,“ segir Gísli Einarsson, eigandi Nexus, sem í enn eitt skiptið er að stækka og opnar í gamla Útilífsplássinu í Glæsibæ um helgina. Slíkt eigi netið erfitt að keppa við. Meira »

„Ríkir algjör óvissa um loðnuna“

Í gær, 20:27 „Við höfum þurft að elta síldina austur eftir og vorum komnir á veiðisvæðið snemma í gærmorgun. Við tókum tvö hol í gær, um 200 til 220 tonn í hvoru, en í dag höfum við ekkert getað verið að veiðum vegna skítabrælu.“ Meira »

„Týpískt íslenskt haustveður“

Í gær, 20:15 „Þetta verður týpískt íslenskt haustveður,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um leiðindaveðrið sem spáð er á morgun. Í nótt má búast við hvassviðri sunna og suðvestanlands, en í fyrramálið bætir í vind um allt land. Á Meira »

Leikur sér að bragðlaukum Norðmanna

Í gær, 20:00 Kokkurinn Atli Már Yngvason opnaði nýverið veitingastaðinn Kötlu í Ósló og hefur hlotið einróma lof matargagnrýnenda. „Við opnuðum núna 28. ágúst og það er búið að vera opið í tvo mánuði og troðfullt á hverjum degi,“ segir Atli um opnun Kötlu. Meira »

Sendu inn tilboð en heyrðu ekki meira

Í gær, 19:45 Aðili sem sendi inn sendi inn hugmynd að rekstri og gerði tilboð í leiguverð í bragganum margumtalaða, þegar Reykjavíkurborg auglýsti eftir hugmyndum árið 2014, segir borgina aldrei hafa verið haft samband við sig, fyrir utan bréf þar sem honum var tilkynnt að tveir aðilar hefðu skilað inn tilboði. Meira »

„Tjónið að mínu mati augljóst“

Í gær, 19:00 „Þetta mál er búið að taka ansi langan tíma,“ seg­ir Ólaf­ur Ad­olfs­son, lyfja­sali og eig­andi Apó­teks Vest­ur­lands. Hæstirétt­ur hef­ur dæmt Lyf og heilsu til að greiða Apó­teki Vest­ur­lands fjór­ar og hálfa millj­ón í bæt­ur vegna sam­keppn­is­brota. Meira »

Skólarnir breyti samfélagi

Í gær, 18:45 Líklegt er að á næstu áratugum verði viðamiklar breytingar á íslensku skólakerfi þar sem hefðbundin mörk skólastiga breytast eða mást jafnvel út. Þetta segir Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambands Íslands. Hann segir að ræða þurfi lengingu skólaskyldu. Meira »

Indverskur víbríngur Geirs Ólafs

Í gær, 18:44 Indverskt lag til heiðurs Gandhi sem Geir Ólafsson gaf út á dögunum, orðræðan og Úganda ferðalag Hjördísar var meðal annars það sem þau Geir og Hjördísi Guðmundsdóttur ræddu í föstudagskaffinu síðdegis á K100. Geir tók dæmi af því hvernig lagið Reyndu aftur myndi hljóma í indverskri útgáfu. Meira »

Smíði nýju skipanna á áætlun

Í gær, 17:59 Smíði nýrrar Vestmannaeyjar og Bergeyjar fyrir útgerðarfélagið Berg-Hugin gengur samkvæmt áætlun. Gert er ráð fyrir að skipin verði afhent útgerðinni í maí og júní á næsta ári, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar, móðurfélags Bergs-Hugins. Meira »

Kalda vatnið ódýrast á Íslandi

Í gær, 17:59 Kalda vatnið er ódýrast á Íslandi sé verð þess á Norðurlöndunum skoðað. Þannig bera heimili í Danmörku rúmlega þrefalt meiri kostnað af notkun á kalda vatninu á ársgrunni en íslensk heimili. Meira »

„Ég myndi aldrei sætta mig við þetta“

Í gær, 17:57 Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, starfandi borgarstjóri og formaður borgarráðs, segir það algjörlega óbjóðandi að framkvæmdirnar við braggann í Nauthólsvík hafi ekki komið upp á yfirborðið í pólitískri umræðu eða samþykktarferli eins og venja er með mál af þessu tagi. Meira »

Þriggja og hálfs árs dómur staðfestur

Í gær, 17:13 Landsréttur staðfesti í dag þriggja og hálfs árs dóm yfir karlmanni fyrir kynferðisbrot hans gegn dóttur sinni. Er hann fund­inn sek­ur um að hafa látið dótt­ur sína snerta kyn­færi sín auk þess að hafa snert kyn­færi henn­ar og fróað sér í návist henn­ar. Meira »

Strætó tilkynnt um gjaldþrotið í gær

Í gær, 17:10 Strætó hefur þegar gert ráðstafanir sem miðast við að fyrirtækið Prime Tours, sem tilkynnt hefur verið um gjaldþrot á, muni hætta akstri samkvæmt rammasamningnum í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um framhaldið. Meira »

Japanar sjá tækifæri á norðurskautinu

Í gær, 17:00 Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, segir japönsk stjórnvöld greina tækifæri á norðurskautinu vegna opnunar siglingaleiða. Um leið feli loftslagsbreytingar í sér mikla áskorun. Kono var meðal ræðumanna á Hringborði norðursins í Hörpu í dag. Meira »

Í farbanni fyrir kortasvik við farmiðakaup

Í gær, 16:48 Erlendur karlmaður hefur verið úrskurðaður í farbann til 24. október næstkomandi vegna gruns um misnotkun greiðslukorta við kaup á flugmiðum. Meira »
RAFVIRKI
ALHLIÐA RAFLAGNIR EKKERT VERKEFNI ER OF SMÁTT Haukur Emilsson Simi 853 1199...
Skrifstofuhúsnæði til leigu
Tvær 12 fm. skrifstofur til leigu í nágrenni við Hlemm. Geta leigst saman. Aðgan...
Hreinsa rennur
Hreinsa þakrennur, fyrir veturinn og tek að mér ýmis smærri verkefni. Uppl. í sí...