Björk fái að reisa hús á Elliðaey leigulaust

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagðist á Alþingi í dag reiðubúinn til að greiða fyrir því að Björk Guðmundsdóttir fái að reisa sér hús á Elliðaey á Breiðafirði og búa þar leigulaust í þakklætisskyni fyrir fyrir starf hennar í þágu lands og þjóðar.

Davíð svaraði fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um hver væri stefna ríkisins um sölu á ríkisjörðum og hvort stjórnvöld litu þannig á að heimildarákvæði í fjárlögum skylduðu stjórnvöld til að selja viðkomandi eignir. Hann spurði einnig hvort í öllum tilfellum ætti að auglýsa eignir ríkisins sem selja ætti og loks spurði hann Davíð hvað honum þætti um að selja náttúruperlur í eigu ríkisins. Davíð sagðist vera sammála Steingrími um að heimild en ekki skylda fælist í heimildarákvæðum fjárlaga. Þá sagði hann að meginreglan væri að auglýsa ríkiseignir sem seldar væru og sagðist vera þeirrar skoðunar að varlega ætti að fara í að selja náttúruperlur. Hann tók þó dæmi af sölu Kersins í Grímsnesi þar sem ríkið nýtti ekki forkaupsrétt. Davíð staðfesti að komið hefði til tals að Björk fengi eyju á Breiðafirði til afnota. Sagðist Davið vel geta hugsað sér að hún fengi aðstöðu til að reisa sér hús á eynni, og búa þar leigulaust, jafnvel í áraraðir. Henni hefði hins vegar verið gerð grein fyrir því að ef til þess kæmi að eyjan yrði seld yrði hún auglýst þannig að aðrir gætu komið að málinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka