Ringulreið í Þingholtunum

Aðstandendur 101 Reykjavík: Ingvar Þórðarson framleiðandi, Baltasar Kormálur leikstjóri og …
Aðstandendur 101 Reykjavík: Ingvar Þórðarson framleiðandi, Baltasar Kormálur leikstjóri og handritshöfundur, Hilmir Snær Guðnason leikari, Damon Albarn tónlistarmaður og Hallgrímur Helgason rithöfundur. mbl.is/Halldór Kolbeins

Kvikmyndin 101 Reykjavík var frumsýnd í Háskólabíói í gærkvöldi fyrir fullu húsi og var aðstandendum kvikmyndarinnar vel fagnað í myndarlok. Viðstödd frumsýninguna voru m.a. spænska leikkonan Victoria Abril, sem leikur eitt aðalhlutverkið í myndinni, og Damon Albarn sem samdi tónlistina í myndinni ásamt Einari Erni Benediktssyni. Snæbjörn Valdimarsson kvikmyndagagnrýnandi Morgunblaðsins segir m.a. í umsögn um myndina að safarík atriði, lýtalaust leikstýrð, skrifuð og leikin lyfti henni langt upp yfir meðallagið.

Hér á eftir fer umsögn Snæbjarnar í heild: Leikstjóri Baltasar Kormákur. Handrit Baltasar Kormákur, byggt á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar. Tónskáld Damon Albarn, Einar Örn Benediktsson. Kvikmyndatökustjóri Peter Steuger. Leikmyndahönnuður Árni Páll Jóhannsson. Hljóð Kjartan Kjartansson. Aðalleikendur Victoria Abril, Hilmir Snær Guðnason, Hanna María Karlsdóttir, Baltasar Kormákur, Ólafur Darri Ólafsson, Þrúður Vilhjálmsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson, Eyvindur Erlendsson, Halldóra Björnsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Edda Heiðrún Backman, Gunnar Eyjólfsson, Pétur Einarsson. Lengd 93 mín. Framleiðandi 101 Reykjavík ehf. Árgerð 2000.
SVÖRT tragikómedía, geggjaður kynlífsfarsi, ástarsaga úr borgarfirringunni, 101 Reykjavík á sér margar skilgreiningar, flestar spaugilegar. Þegar upp er staðið er grínið sterkasti þátturinn. Myndin gerist í núinu í hinu gamla hjarta borgarinnar, einkum í næturlífinu, þar sem hjartslátturinn er hvað hraðastur - á orkuveitunni Kaffibarnum.

Önnur aðalpersónan, Hlynur (Hilmir Snær Guðnason), er uppalinn á þessu ágæta svæði, þekkir ekki annað og vill það ekki. Í hans augum er Grafarvogurinn úti á landi. Ekkert venjulegur maður, Hlynur, einhver mundi kalla hann guðsvolaðan eymingja. Og undarlega að honum staðið: Faðirinn róni (Eyvindur Erlendsson), móðirin lesbía (Hanna María Karlsdóttir). Árin farin að nálgast þriðja tuginn, hann enn í móðurgarði, letiblóð á atvinnuleysisbótum, liggjandi í klámsíðum á netinu, keðjureykandi, að skemmta sér þá hann á fyrir því, dauðskelkaður við ábyrgð og alvöru lífsins. Finnst gott að sofa hjá en forðast að sjá hjásvæfurnar í morgunsárið, hvað þá heldur meira. Liggur þó um sinn undir ásökunum um að hafa gert barn með stúlkunni Hófí (Þuríður Vilhjálmsdóttir).

Sem hann kúrir, alsæll, undir pilsfaldi mömmu, kemur þriðji einstaklingurinn inní litlu veraldarboruna í Þingholtunum. Flamenco kennarinn Lola (Victoria Abril), vinkona mömmunnar og elskhugi, sem kemur í ljós er hún drífur sig útúr skápnum. Það breytir engu um að Lola rennir hýru auga til folans, sem virðist engin bótaþegi í rúminu.

Aðstæðurnar eru því meira en lítið kúnstugar, nánast illútskýranlegar. Baltasar Kormákur hefur samið þetta fína handrit uppúr bók Hallgríms Helgasonar, bæði á íslensku og öll samtölin þar sem Lóla kemur við sögu, á ensku. Ég hef ekki lesið bókina og get því ekki borið hana saman við handritið, það skiptir heldur ekki máli, aðalatriðið er að það er bæði fyndið, tragískt, geggjað og orðheppið. Helstu gallana að finna á alvarlegri flötunum, líkt og minningum Hlyns um föður sinn og Hófíarkaflinn er endasleppur og virkar ósannfærandi. Aðalpersónurnar vel mótaðar, tungutakið eðlilegt, hvort sem um er að ræða viðskipti Kaffibarsliðsins, heimiliserjurnar eða enskuna í kringum Lólu, sem er skondin. Þrátt fyrir sína galla er þetta frekar heillandi fólk, á mörkum skáldskapar og raunveruleika. Persónurnar og sagan sköpuð af mönnum sem þekkja þetta umhverfi af eigin raun og hafa burði til þess að koma því til skila. Ég er á því að Baltasar og Hallgrímur dragi upp nokkuð trúverðuga mynd af borgarfirringu unga fólksins, ekki síst á næturgöltrinu, þótt sú mynd sé ótæpilega krydduð með ýkjum og makalausum ástamálum. Þeir hafa verið þarna, eru húmoristar og sögumenn.

Myndin skilur ekki eftir sig djúp spor enda örugglega ekki meiningin, en stendur fyrir sínu. 101 Reykjavík er bráðhress afþreying, léttgeggjuð, gamansöm og í flesta staði vel gerð. Þarf maður að biðja um meira? Að einu leyti virðist hún þó skara framúr flestum öðrum íslenskum kvikmyndum; það er ekki aðeins á færi Íslendinga að njóta hennar, aðrar þjóðir eiga skilja hana engu síður. Hefur kosti sem gætu skapað henni vinsældir annars staðar en hér í þingholtum veraldar. Ástarþríhyrningurinn er með þeim yndislegu ósköpum að hann á skilið að vekja alþjóðaathygli, lúðar einsog Hlynur og það umhverfi og félagsskapur sem hann velur sér er óskorðaðir af landamærum. Hispursleysið, óttinn við ábyrgð og fullorðinsárin, viðhorfið til barneigna, allt eru þetta alkunnar þrautir og pína, landlægur hvar sem er. Þá er eitt borðliggjandi, alþjóðlegt tromp með í spilinu, sú magnaða og kynþokkafulla Victoria Abril. Hún heillaði mann upp úr skónum á háu hælunum sínum fyrir tæpum áratug og gerir enn og hefur staðið síðan framarlega í hópi evrópskra leikkvenna. Hún er annar burðarásinn í 101 og glæðir persónu Lólu (gott nafn) skeleggri kynorku, húmor og tilfinningu.

Hinn póllinn, Hilmir Snær, er í erfiðu hlutverki heldur neikvæðrar persónu, þannig samansettri að hún er ekki trúverðug. Hilmir Snær er einnig full brattur og vel á sig kominn til að passa kórrétt í ímyndina en skilar Hlyni frá sér á vel viðunandi og kómískan hátt. Hanna María Karlsdóttir er í vanþakklátu hlutverki þriðju fiðlu og er dálítið utangátta. Baltasar Kormákur kann sína rullu utanað og þá er firna kraftur í mörgum aukaleikurunum, ekki síst stúlkunni í samfarasenunni þar sem Hlynur gerist óboðinn áhorfandi. Það er eitt safaríkra atriða (af öðrum má nefna uppistandið við stöðumælavörðinn, deiluna við embættismanninn á atvinnuleysisskrifstofunni, jólaboðið í Grafarvoginum), lýtalaust leikstýrðra, skrifaðra og leikinna sem lyfta 101 langt upp yfir meðallagið.

Sæbjörn Valdimarsson

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert