Eldvörpur, gervilimur, flugeldar, bálkestir og sprengingar

Sviðsframkoma Rammstein þykir einkar lífleg.
Sviðsframkoma Rammstein þykir einkar lífleg. mbl.is/Árni Sæberg

Hljómleikar þýsku hljómsveitarinnar Rammstein
Laugardalshöll,
föstudagskvöldið 15. júní 2001.
Um upphitun sá Ham.

"Bang!, Bang!", segir í texta lagsins "Feuer Frei!" sem er að finna á þriðju hljóðversskífu Rammstein, Mutter. Þessi orð lýsa ágætlega því sem fram fór síðastliðin föstudag í Laugardalshöllinni. Þar urðu ríflega 6000 rokkþyrstir Íslendingar vitni að alvöru rokksýningu, heljarinnar kabarett þar sem eldvörpur, gervilimur, flugeldar, bálkestir og sprengingar voru á meðal atriða. Það var ekki um að villast, Rammstein voru mættir í bæinn. Biðin langa loks á enda. Hin goðsagnakennda sveit Ham hitaði upp fyrir þá þýsku og var það vel hæfandi, enda tónlist sveitanna um margt svipuð; grípandi gítarstef og bylmingsþung keyrsla. Er Ham var kominn í fimmta lag var mér orðið fullljóst hvaða pælingum þeir voru í. Þetta var ekki slagarakvöldið sem margir vildu efalaust upplifa, sveitin staðráðin í að láta áhorfendur ekki fá það sem þeir vildu. Ég geri mér það í hugarlund að á ferðinni hafi verið persónuleg uppáhöld meðlima og því var ekkert "Svín", ekkert "Youth"; hins vegar "Manifesto," "Dimitri" og röð af hægum lögum. Ég viðurkenni fúslega að ég var orðinn óþolinmóður á tímabili, leiddist jafnvel enda gíraður upp í hausaskak og hraða. En menn eru sannarlega komnir á hættulega braut þegar þeir fara miðla málum í listsköpuninni, eitthvað sem Ham létu ekki hanka sig á þetta kvöldið. Lokalagið var svo hið sígilda "Partíbær" og þar lét aufúsugestur sjá sig, sjálfur Flosi Þorgeirsson mættur á gítarinn! Ham kláruðu sína pligt með sóma og sann en áhorfendur voru ekkert sérstaklega með á nótunum; ekki ef miðað er við nýafstaðna hljómleika Ham á Gauki á Stöng sem fram fóru fyrr í vikunni. Nei, fólk var fyrst og fremst komið til að sjá Rammstein, það var greinilegt. Það er oft sagt um Þjóðverja að þar sé allt á hreinu; járnagi og skipulag á öllum og öllu. Hvort um slembidóm sé að ræða eður ei sýndu þessi einkenni sig afar vel á tónleikum Rammstein. Á svið á slaginu 21.15 og síðan skotheld dagskrá keyrð í gegn; 100% skemmtanalist í gangi og sveitin klöppuð upp tvisvar. Fyrsta lagið var opnunarlag plötunnar nýju, Mutter. Uppbyggingin var löng og spennandi og voru meðlimir leiddir inn einn af öðrum sem lík væru; tema sem er gegnumgangandi á téðri plötu. "Mein Herz Brennt" fór svo loks í gang með látum en hjarta söngvarans sprakk í bókstaflegri merkingu og rauk af honum vel og lengi. Á eftir fylgdu fleiri lög af Mutter: "Links 2 3 4", "Adios" "Feuer Frei" og "Spieluhr". Einblínt var á keyrslulögin í upphafi og var það vel; stemningin mögnuð þannig upp á glúrinn hátt. Rammstein er viðlagavæn sveit og áhorfendur sungu með af hjartans lyst. "Weisses Fleisch" var svo fyrsta lag af eldri plötum, en það er að finna plötunni Herzeleid, frumburði sveitarinnar. Slagarapakki Rammstein er stór. Lög eins og "Sensucht", "Asche zu Asche", "Du hast", "Sonne" og "Rammstein" voru hrist fram úr erminni við mikinn fögnuð, hopp og hí og allar hendur á lofti; einatt með tákni rokkarans (baugfingur, þumall og langatöng krepptir, vísifingri og litla putta otað út). Þegar ballaðan "Nebel" var leikin var tímabært að gera salernishlé. Kannski semja þeir hægu lögin í þeim tilganginum? Segi bara svona. Vert er og að minnast á öll aukataæki og tól en sýningarhluti tónleikana var oft og tíðum afar tilkomumikill. Söngvarinn, Till Lindemann, stóð í björtu báli á tímabili og eitt sinn beitti hann eldvörpu af miklu listfengi. Flugeldar flugu fram í salinn og reglulega voru sprengingar og eldgos. Þessi látalæti náðu þó algeru hámarki í Sadó-masó lofsöngnum "Bück Dich". Í miðju lagi dró Lindemann fram stæðilegan gervilim og hóf að gæla við hann sem mest hann mátti. Úr honum sprautaðist svo rauður vökvi, sem Lindemann beindi að áhorfendum og fékk hann sér svo gúlsopa sjálfur. Hinn mjóslegni hljómborðsleikarinn Flake var svo eitthvað að skottast í kringum havaríið. Allra síðasta lagið var svo hið stórfenglega "Wollt Ihr Das Bett In Flammen Sehen". Nokkuð var tekið að draga af fólki þá, enda súrefni af skornum skammti. Gæslufólk hefði nú mátt vera duglegra að sprauta vatni á fólkið. Tónleikarnir fóru vel fram og ég verð að viðurkenna að ég átti von á meiri látum, meiri geðveiki. Í stað þess var meiri bræðralagsandi í gangi og flestir með sælubros á vörum að tónleikum enduðum. Það má með sanni segja að rokkið hafi unnið stórsigur í Höllinni á föstudagskvöldið var. Arnar Eggert Thoroddsen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert