Eldurinn kom upp aftur og báturinn sökk nærri landi

Fimm manna áhöfn Dritvíkur SH 412 frá Ólafsvík var bjargað …
Fimm manna áhöfn Dritvíkur SH 412 frá Ólafsvík var bjargað um borð í Ingibjörgu SH 174 í gærkvöldi. Eldur kom upp í vélarrúmi bátsins um klukkan hálfátta í gærkvöldi er báturinn var að veiðum á Breiðafirði norður af Rifi. mbl.is/Alfons Finnsson

„Báturinn var dreginn til hafnar en rétt áður en hann kom að höfninni blossaði eldurinn upp aftur og það var mikill eldur í bátnum þegar hann kom að bryggjunni. Við reyndum að slökkva eldinn í um tvo tíma en þetta var eitt olíueldhaf í vélarrúminu. Til þess að hann sykki ekki í höfninni ákváðum við að draga hann aðeins út fyrir og ætluðum að draga hann upp í fjöru en hann sökk áður en það hafðist," sagði Jón Þór Lúðvíksson, slökkviliðsstjóri Snæfellsbæjar, en að sögn Jóns Þórs var klukkan um fjögur í nótt þegar Dritvík SH sökk.

Fimm manna áhöfn Dritvíkur SH 412 frá Ólafsvík var bjargað um borð í Ingibjörgu SH 174 í gærkvöldi. Eldur kom upp í vélarrúmi bátsins um klukkan hálfátta í gærkvöldi er báturinn var að veiðum á Breiðafirði, um 16 til 17 sjómílur norður af Rifi á Snæfellsnesi.

Kristján Þórisson, skipstjóri á Dritvík, sem er 50 tonna dragnótarbátur, sagði við Morgunblaðið í gærkvöldi að engum í áhöfninni hefði orðið meint af. Hann var sjálfur frammi í stafni þegar menn urðu varir við reykjarlykt.

Allt fullt af svörtum reyk

"Ég hljóp aftur í og þá var allt orðið fullt af svörtum reyk og ekkert hægt að gera," sagði Kristján. Hann sagði að þeir hefðu reynt að dæla vatni á eldinn, en það ekki tekist þar sem vatnsslöngur hefðu líklega bráðnað í sundur.

Kristján sagði að þeir hefðu því beðið á dekkinu eftir Ingibjörgu SH en að hans sögn slokknaði eldurinn í smátíma.

"Rétt eftir að við vorum komnir um borð í Ingibjörgu og báturinn í tog varð sprenging. Olíutankarnir hafa þá verið að springa en það voru um 5.000 lítrar af olíu í bátnum," sagði Kristján.

Gott veður var á svæðinu og tók Ingibjörg Dritvíkina í tog. Unnið var að slökkvistörfum, sem m.a. varðskipsmenn á Óðni og Slökkvilið Ólafsvíkur tóku þátt í, framundir miðnætti en þá var ákveðið að hætta þar sem dekkið á Dritvíkinni var að gefa sig og yfirgáfu menn því bátinn.

Ingibjörg SH var skammt undan

Tilkynningaskyldunni bárust boð um eldinn í Dritvík um klukkan 19:35 og var Ingibjörg, sem var að veiðum skammt frá, látin vita. Hún var komin að Dritvíkinni um hálftíma síðar.

Varðskipið Óðinn kom að bátunum um klukkan 21. Þá lögðu tveir Sómabátar úr Ólafsvíkurhöfn um klukkan 21:30, en um borð voru slökkviliðsmenn frá Ólafsvík með dælur meðferðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert