Eyrarsveit verður Grundarfjarðarbær

Í gær fór fram kosning í Grundarfirði um nýtt stjórnsýsluheiti í stað sveitarfélagsins Eyrarsveitar. Grundarfjarðarbær fékk 133 atkvæði eða 51,95%, Sveitarfélagið Grundarfjörður fékk 119 atkvæði eða 46,48% og auðir og ógildir seðlar voru 4 eða 1,56%. Á kjörskrá voru 565. Atkvæði greiddu 256 eða 45,3%.

Samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar er niðurstaða atkvæðagreiðslunnar bindandi fyrir sveitarstjórn. Á grundvelli niðurstöðu kosninganna verður jafnframt breytt samþykktum sveitarfélagsins á þá leið að sveitarstjórn breytist í bæjarstjórn, byggðaráð í bæjarráð og sveitarstjóri verður bæjarstjóri. Stefnt er að því að hafa fyrri umræðu um breytingar á samþykktum í desember og síðari umræðu í janúar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert