Páskaskattur varð páskaegg

Gullslegið páskaegg
Gullslegið páskaegg mbl.is

Sá siður að gefa páskaegg varð ekki almennur hér á landi fyrr en um 1920 að talið er. Páskaegg eiga sér þó mun lengri sögu.

Sá siður að gefa páskaegg varð ekki almennur hér á landi fyrr en um 1920 að talið er. Páskaegg eiga sér þó mun lengri sögu. Í bókinni Táknmál trúarinnar segir herra Karl Sigurbjörnsson biskup um páskaeggið að í frumkirkjunni hafi menn litið á eggið sem tákn upprisunnar eða, "...Eins og ungi lifir í egginu og brýst út úr því þegar tíminn er fullnaður, þannig munum við og lifa og losna úr viðjum dauðans vegna upprisu Krists..." Skattur leiguliða Uppruna páskaeggjanna í Mið-Evrópu má rekja til þess að á dögum lénsveldis greiddu leiguliðar landsdrottnum sínum skatt nokkrum sinnum á ári og var hann fólginn í þeim afurðum, sem tiltækar voru á hverjum tíma, segir í Sögu daganna eftir Árna Björnsson. Að vori voru eggin nýnæmi og þau mátti ekki borða á föstunni frekar en kjöt. Í daglegu tali var páskaskattur oft nefndur páskaegg. Með árunum komst sú venja á að klaustur og landeigendur gáfu hluta eggjanna til þurfamanna og seinna þróaðist sá siður að gefa börnum páskaegg. Sumir tóku upp á því að sjúga úr þeim innihaldið, mála eggin og skreyta eins og enn er víða gert og gefa í páskagjöf. Leita að eggjum Í Sögu daganna segir að í lok 17. aldar hafi farið að bera á hugmyndum um páskahérann, sem færði börnunum páskaegg. Sá siður þróaðist aðallega í leik meðal barna í bæjum og borgum. Leikurinn felst í að leita eftir eggjum í skógum og görðum á páskadagsmorgun. Þessi siður er vel þekkur víða um heim en hefur aldrei verið tekinn upp hér á landi. Ástæðan gæti verið skógleysi og fáir garðar. Meðal yfirstéttarinnar varð fljótt alsiða að gefa páskaegg, sem skreytt voru guðrækilegum myndum og andlegum spakmælum. Seinna varð léttara yfir skreytingunum og í stað heilræða tóku við ástarjátningar og hamingjuóskir. Frægustu eru þó án efa páskaeggin, sem rússneski gullsmiðurinn Carl Fabergé smíðaði en þau eru talin vera meðal fágætra listmuna. Meðal annars smíðaði hann egg fyrir Nikulás II Rússakeisara, sem keisarinn gaf móður sinni. Eggin eru gullslegin, skreytt eðalsteinum og eru flest í eigu listasafna. Páskaegg úr pappa Það er svo á 19. öld sem sælgætisframleiðendur í Mið-Evrópu fara að framleiða páskaegg. Fyrstu eggin, voru egglaga pappaöskjur, sem fyllt voru með sælgæti. Reyndar eru þau egg enn algeng á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Súkkulaðiegg eins og við þekkjum best í dag koma svo fljótlega til sögunnar. Í þeim er sælgæti að ógleymdum spakmælum eða málsháttum. Páskaegg ná ekki almennum vinsældum hér á landi fyrr en eftir 1920 þrátt fyrir að margir Íslendingar hljóti að hafa þekkt til þeirra eftir að hafa dvalið í Danmörku. Í Sögu daganna kemur fram að páskaegg eru fyrst auglýst árið 1922. Í auglýsingunni er vakin athygli á að páskaeggin séu tilbúin í Björnsbakaríi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert