Bátur hafnaði á brimvarnargarði í Húsavík

Reynir GK-177 í slipp í Húsavík.
Reynir GK-177 í slipp í Húsavík. mbl.is/Hafþór

Reynir GK-177, 50 tonna eikarbátur, skemmdist talsvert þegar hann rakst á nýjan brimvarnargarð við höfnina í Húsavík um tvöleytið í nótt. Brimvarnargarðurinn, sem er vestan við Norðurgarð og sker gömlu siglingaleiðina inn í höfnina, er enn í byggingu. Á honum eru blikkljós og bauja.

Tveir voru í áhöfn, en þeir urðu brimvarnargarðsins ekki varir fyrr en of seint þar sem bátnum hafði ekki verið siglt til Húsavíkur í einhvern tíma. Mennirnir sluppu ómeiddir og tókst þeim að koma bátnum til hafnar af sjálfsdáðum. Þar var báturinn tekinn í slipp til skoðunar. Brimvarnargarðurinn er ekki á siglingakortum eða -forritum fyrir báta og skip þar sem hann er nýr af nálinni, að sögn lögreglu.

mbl.is