Stafrænar sjónvarpssendingar að hefjast um breiðband Símans

Snjallkort sem er notað til þess að afrugla stafræna sjónvarpsdagskrá …
Snjallkort sem er notað til þess að afrugla stafræna sjónvarpsdagskrá um breiðband Símans. mbl.is/Sverrir

Dreifing á stafrænu sjónvarpsefni um breiðband Símans hefst þann 1. nóvember. Með stafrænni tækni verður hægt að fjölga erlendum endurvarpsrásum á breiðbandi úr 28 í 45, í fyrsta áfanga. Þá verður einnig hægt að fjölga innlendum rásum. Í stafrænu sjónvarpi Símans verður ennfremur hægt að nýta stafrænan dagskrá- og upplýsingavísi, sem gerir notendum kleift að fletta á milli rása, fá nánari upplýsingar um hvern þátt fyrir sig og sjónvarpsdagskrá hverrar rásar allt að viku fram í tímann. Einnig er hægt að raða upp stöðvum eftir smekk notenda. Aukinheldur verður barnalæsing til staðar í stafrænu sjónvarpi Símans.

Þór Jes Þórisson, framkvæmdastjóri Breiðbandssviðs Símans, sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að stafrænar sendingar muni hafa miklar breytingar í för með sér og geri fyrirtækinu meðal annars kleift að miðla fleiri rásum til notenda. "Hliðræna kerfið er fullnýtt og því þarf að skipta yfir í stafrænt til þess að fjölga rásum og koma með nýjungar fyrir sjónvarp." Hann segir að ekki standi til að bjóða notendum upp á gagnvirkt sjónvarp í þessum áfanga. Hann segir þó að stefnt sé að gagnvirku sjónvarpi í nánustu framtíð.

"Gagnvirkt sjónvarp hefur gefið misjafna raun erlendis, svo sem í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem það er lengst á veg komið. Við höfum því ákveðið að fara hægar í sakirnar, en þess má geta að net Símans verður að fullu gagnvirkt á höfuðborgarsvæðinu um mitt næsta ár. Netið um Breiðband er í dag í boði á þeim svæðum sem eru gagnvirk."

Þór segir að þeir sem vilja sjá stafrænt sjónvarp Símans þurfi að hafa aðgang að breiðbandskerfi Símans og fá stafrænan myndlykill með snjallkorti til að geta afruglað sjónvarpsefnið. Um 33 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu búa yfir breiðbandstengingu. Það jafngildir því að annað hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu sé tengt breiðbandinu. Talið er að 18% heimila í Evrópusambandinu hafi tekið á móti stafrænum sendingum í lok ársins 2001, en 25% heimila í Bandaríkjunum.

Sjá nánari upplýsingar um breiðband Símans.

mbl.is