Önnur djúpsprengjan við Álftanes sprengd

Sprengingin var mjög öflug og sprengjustrókurinn 25-40 m hár.
Sprengingin var mjög öflug og sprengjustrókurinn 25-40 m hár. mbl.is/Jim

Önnur djúpsprengjan, sem fannst við Álftanes nýlega, var sprengd klukkan 17:45 í dag. Sprengingin var mjög öflug og náði sprengjustrókurinn í 25-40 metra hæð. Sprengingin kom einnig fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar og samkvæmt sjálfvirkum skjálftalista mældist hann 1,6 stig á Richter.

Tvær sprengjur fundust upphaflega en í dag fannst aðeins önnur, sú hættulegri að mati sérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Lítil sem engin hætta er talin stafa af hinni sprengjunni. Kafarar leituðu að henni en fundu ekki vegna þess hve skyggni var lítið. Það ræðst af veðri á morgun hvort leit verður þá haldið áfram.

Kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fundu torkennilegan hlut þann 30. september út af Hliðsnesi á Álftanesi og kafarar Gæslunnar staðfestu daginn eftir að um sprengju væri að ræða. Leituðu þeir í nágrenninu og fundu þá aðra sprengju til viðbótar.

Spengjurnar eiga sennilega rætur að rekja til sprengjuflugvélar af gerðinni Lockheed Hudson sem hrapaði í sjóinn á þessu svæði á stríðsárunum með þeim afleiðingum að allir um borð fórust.

Um var að ræða bandarískar MK 49 djúpsjávarsprengjur úr seinni heimstyrjöldinni sem notaðar voru til að ráðast á kafbáta óvinaþjóða. Þær voru hannaðar þannig að þær geta jafnt sprungið neðansjávar og á þurru landi. Báðar sprengjurnar höfðu þrískiptan kveikibúnað og því flókið fyrir sprengjusérfræðingana að gera þær óvirkar. Venjulega ættu sprengjur sem þessar að springa þegar þær hafa náð niður á ákveðið dýpi en þær voru á grunnsævi og urðu þess vegna ekki virkar. Í hvorri sprengjunni voru 215 kg. af efninu torpex sem er mun kraftmeira en sprengiefnið TNT og jafnast allt þetta sprengiefni á við 1 tonn af dýnamíti.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hófu snemma í morgun að undirbúa eyðingu djúpsprengjanna Sprengjusérfræðingar og kafarar Landhelgisgæslunnar fóru um borð í varðskip í Hafnarfjarðarhöfn og fór varðskipið frá bryggju fimm mínútur fyrir átta. Þá var gert ráð fyrir að hægt yrði að sprengja djúpsprengjurnar um hádegisbilið.

Farið var á slöngubát að staðnum kl. 9:41 og rétt fyrir kl. 10 hófu kafarar að athafna sig. Þann 1. október sl., er þeir voru að rannsaka svæðið, höfðu þeir sett bauju á staðinn þar sem önnur sprengjan fannst svo auðvelt var að finna hana aftur. Sú sprengja var síðan fest við flotpramma.

Fram eftir degi reyndu kafararnir árangurslaust að finna hina sprengjuna en allt kom fyrir ekki. Um kl. 14:16 var ákveðið að hefjast handa við að lyfta þeirri sprengju sem komið hafði í leitirnar innan einnar klukkustundar og var lögregla látin vita um það.

Kl. 15:09 var byrjað að lyfta sprengjunni og 40 mínútum síðar var hún dregin fjær landi. Eftir það var ákveðið að halda áfram að leita að hinni sprengjunni en það gekk ekki vel sökum lélegs skyggnis neðansjávar og mikils þara og var að lokum ákveðið að hætta leit vegna öryggis kafaranna.

Um kl. 15:48 sigldi skúta fyrir Valhúsagrunnsbauju og svaraði ekki kalli þannig að stýrimaður á léttabát varðskipsins hélt á eftir henni til að koma í veg fyrir að hún færi inn á hættusvæðið.

Tæpum hálftíma síðar eða um kl. 16:30 byrjuðu sprengjusérfræðingar að koma sprengiefni fyrir á flotprammanum og kl. 17:45 sprakk sprengjan.

mbl.is
Loka