Námið er teóría - lífið er praktík

Guðrún Pétursdóttir.
Guðrún Pétursdóttir. mbl.is/Kristinn

Framhaldsskóli snýst ekki fyrst og fremst nám og próf að mati Guðrúnar Pétursdóttur, forstöðumanns Sjávarútvegsstofnunar og dósents við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Í viðtali í Tímariti Morgunblaðsins á sunnudaginn segist Guðrún vera fylgjandi því að endurskoða skólakerfið í heild því þar gæti tímanum verið betur varið.

„En ég er ekkert viss um að unglingum liggi á í gegnum framhaldsskólann (...) Aðalatriðið á þessum aldri er félagslífið - í bland við festu í námi. Unglingar komast fyrst og fremst til manns í gegnum hagnýt verkefni framhaldsskólans, eins og að setja upp leikrit, gefa út blað, reka sjoppu, skipuleggja ferðalög og þar fram eftir götunum. Námið er teóría en þessi verkefni þjálfa praktíkina.“

Hins vegar vill Guðrún ekki draga úr vægi bóknáms og er raunar þeirrar skoðunar að nám á efri stigum kenni fólki ómetanlegan sjálfsaga og vinnulag. „Það skiptir öllu máli upp á sjálfsaga að klára slíkt nám, hafi það á annað borð verið hafið. Fólk skyldi því hugsa sig verulega vel um áður en það stingur hálfkláraðri lokaritgerð ofan í skúffu - það getur orðið þeim dýrt síðar. Þess vegna segi ég við nemendur sem spyrja hvort ekki sé nóg að þekkja efnið vel, að svo sé ekki. Reynslan sem aflast við að skrifa ritgerðina, verja hana, gefa hana út og jafnvel halda lokaveisluna, nýtist öll síðar.“

mbl.is