Halldóra tekst á við hlutverk Don Kíkóta

Halldór Geiraðsdóttir í hlutverki Don Kíkóta.
Halldór Geiraðsdóttir í hlutverki Don Kíkóta. mbl.is/Kristinn

Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, er í forsíðuviðtali Tímarits Morgunblaðsins á páskadag. Hún æfir nú hlutverk frægasta riddara heimsbókmenntanna – Don Kíkóta frá Mancha – í uppsetningu Borgarleikhússins sem fer á fjalirnar 13. maí í leikstjórn Guðjóns Pedersen. Mörgum fannst furðu sæta þegar kona var valin til þess að skrýðast búningi hins sjónumhrygga riddara, og kannski undraðist Halldóra einna mest sjálf.

„Þegar þessum bolta var kastað til mín fyrst, þá kviknaði í mér. Eins og eldsprengju hefði verið kastað inn í mig. Ég hálflamaðist,” segir hún alvarlega og útskýrir að hlutverkið hafi ekki verið sambærilegt neinu sem henni hafi áður boðist. „Fyrir utan kannski Fíflið í Lé konungi. Það var draumahlutverk af svipuðum meiði, um ævintýri og andlegt frelsi – og karlhlutverk, þótt algengt sé að kona leiki það.”

Í eldhafinu umhverfis Don Kíkóta sá Halldóra hins vegar ekki fyrir sér að hún gæti tekist á við hlutverkið og hafnaði því tilboðinu – með trega. „Mér fannst ég hvorki hafa líkamlegan né andlegan styrk til þess að taka að mér svona stórt hlutverk – ég var nýstaðin upp eftir barnsburð og það er til dæmis grundvallaratriði að sofa fullan svefn til þess að gera eitthvað svona umfangsmikið. En svo fara hlutirnir nú bara eins og þeir eiga að fara,” heldur hún áfram. „Þetta var orðað við mig aftur töluvert seinna. Þá var krafturinn kominn og ég gat ekki skorast undan. Þetta er svolítið eins og að vera beðin að koma í viðtal hjá Morgunblaðinu, maður mætir þótt maður sé pínulítið hræddur. Það má ekki alltaf láta aðra um að stökkva fram af hengifluginu.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert