Mikilvægt að fylgjast með líðan nýbakaðra foreldra

Líðan nýbakaðra foreldra við útskrift af fæðingardeild hefur forspárgildi um hvernig þeir aðlagast foreldrahlutverkinu og hvernig þeim kemur til með að líða sex vikum eftir heimferð. Foreldri sem líður illa við heimferð er líklegra til að líða illa sex vikum síðar. Skiptir þá engu máli hvort foreldrar hafi verið á sængurkvennagangi, í Hreiðrinu svokallaða eða með börn sín á vökudeild.

Foreldrum barna af vökudeildum er hættara við að líða illa við útskrift en öðrum foreldrum. Aðlögun foreldra sem hafa átt barn á vökudeild eða sængurkvennagangi, er mjög sambærileg viku eftir heimferð en foreldrar sem hafa verið á Hreiðrinu hafa betur aðlagast foreldrahlutverkinu en hinir hóparnir. Þó virðist aðlögun foreldra úr Hreiðrinu hafa tilhneigingu til að versna þegar líður á fyrstu sex vikurnar meðan hún hefur tilhneigingu til að batna hjá öðrum foreldrum. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem hjúkrunarfræðingarnir Margrét Eyþórsdóttir og Guðrún Kristjánsdóttir hafa unnið en niðurstöður hennar voru kynntar á ráðstefnunni Hjúkrun 2004.

Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman foreldra heilbrigðra og veikra nýbura og hvað aðlögun þeirra að foreldrahlutverkinu og andlega og líkamlega líðan þeirra varðar. Úrtak rannsóknarinnar var 152 foreldrar heilbrigðra nýbura, 100 úr Hreiðrinu og 52 af sængurkvennagangi, og 68 foreldrar allra barna sem útskrifuð voru af vökudeild á þeim tíma sem rannsóknin stóð yfir, þ.e. sumarið 2001. Samtals tóku 110 foreldrapör þátt í rannsókninni af 174 sem valin voru í úrtakið eða 63,2%.

Gagna var aflað með því að foreldrar svöruðu þrisvar sinnum spurningalistum; á meðan þau voru á spítalanum, viku eftir útskrift og svo sex vikum eftir útskrift. Feður jafnt sem mæður voru spurð um líðan enda segja rannsakendur að líðan annars foreldris hafi mikil áhrif á líðan hins.

Bjóða þarf viðeigandi þjónustu

„Fyrir okkur sem fagmenn þá skiptir það máli að vita það að líðanin hefur forspárgildi,“ sagði Guðrún í samtali við Morgunblaðið. „Það skiptir máli að við metum líðan foreldra og bjóðum þeim viðeigandi þjónustu. Fólk sem líður vel fyrir heimferð er líklegt til að líða líka vel sex vikum eftir heimkomu, hvort sem barnið var á vökudeild eða ekki. Það er greinilegt að hlutirnir batna ekki af sjálfu sér.“

Guðrún segir að góð þjónusta sé veitt nýbökuðum foreldrum fyrstu dagana eftir að heim er komið, en síðan dregur verulega úr eftirfylgni. Sérstaklega eigi þetta við um foreldra úr Hreiðrinu. Hún bendir á að við rannsóknir hafi komið í ljós að aðlögun versnar marktækt eftir því sem líður á fyrstu sex vikurnar hjá foreldrum úr Hreiðrinu en hún batnar marktækt hjá öðrum foreldrum. „Hugsanlega erum við að sleppa fólki, sem allt virðist ganga vel hjá, of snemma,“ segir Guðrún. „Það skiptir máli að meta líðan þessara foreldra. Við höfum verið að gera stórar breytingar á þjónustu við foreldra án þess í rauninni að vita afleiðingarnar.“

Guðrún og Margrét benda á að niðurstöðurnar gefi til kynna að hjúkrunarfræðingar þurfi að vera meðvitaðir um líðan foreldra eftir fæðingu á öllum deildum. „Ef við getum haft áhrif á líðanina fyrir heimferð getum við haft áhrif á líðanina eftir sex vikur,“ segir Guðrún. Þær segja niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að halda áfram að skoða aðlögun foreldra að foreldrahlutverkinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »